Páll A. Pálsson
Berklaveiki í húsdýrum á Íslandi


Inngangur
Berklaveiki er langvinnur sjúkdómur af völdum berklasýkla (Mycobacterium tuberculosis).
Berklaveiki getur lagst á allar tegundir húsdýra og veldur auk þess oft sjúkdómum í fuglum.
Þrjú afbrigði berklasýkla eru algengust; mannaberklar (Typ. humanus),nautaberklar (Typ. bovinus) og fuglaberklar (Typ. avium). Mannaberklasýkillinn veldur fyrst og fremst berklaveiki í mönnum en stöku sinnum veldur hann berklaveiki í öpum og dýrum sem hafa mjög náin og stöðug samskipti við menn eins og kjölturakkar og kettir, en talið er til undantekninga að nautgripir smitist af mannaberklum. Fuglaberklasýkillinn er eina afbrigðið sem veldur berklaveiki í fuglum, en getur einnig valdið berklaveiki í svínum en sjaldnar í nautgripum, sauðfé og hrossum. Nautaberklasýkillinn virðist minnst sérhæfður þessara afbrigða því hann veldur berklaveiki í flestum  tegundum dýra, auk þess sem hann veldur iðulega berklaveiki í fólki ef svo ber undir og er þar jafnmikill skaðvaldur og mannaberklarnir sjálfir.
Berklasýkillinn getur ekki aukið kyn sitt utan sjúklingsins. Aðaluppspretta berklasmits kemur því frá berklaveiku fólki, nautgripum og fuglum.
Í nautgripum verður sýking langoftast (90%) gegnum öndunarfærin, en í svínum og fuglum er smit frá meltingarvegi langalgengast. Frá smitstað í slímhúð öndunarfæra eða meltingarvegs berast sýklar til viðkomandi svæðiseitla og valda þar bólgum. Í dýrum mun fremur sjaldgæft að sýkingin staðni á þessu stigi, heldur breiðist sýkingin út, að vísu mishratt eftir dýrategundum og aðstæðum,uns yfir lýkur.


Berklaveiki í nautgripum
Eina elstu heimild um búfjársjúkdóma hér á landi er að finna í ritgerð Magnúsar Stephensen árið 1808.

Berklaskemmdir í lungum úr
nautgrip. Áberandi gulleitur
gröftur sem er sérkennandi fyrir
berkla í nautgripum.
Heimild: W.S. Monlux og
A.W. Monlux, Atlas of Meat
Inspection Pathology,
Washington, 1972.

Ekki er þar minnst á berklaveiki í nautgripum. Snorri Jónsson dýralæknir telur í ritgerð sinni um
búfjársjúkdóma frá 1879 að berklaveiki í nautgripum sé óþekkt. Innflutningur til landsins á nautgripum,hrossum og sauðfé var bannaður með lögum nr. 7/1882, nema með sérstakri undanþágu stjórnvalda. Árið 1905 var lögum þessum breytt þannig að þau tóku líka til svína og geita. Síðan hefur verið í gildi innflutningsbann á öllum dýrum að kalla, nema sérstök undanþága ráðuneytis komi til. Nær engar líkur eru á því að berklaveikir gripir hafi verið fluttir til landsins síðan. Þótt nautgripaberklar hafi verið vel þekktir í mörgum löndum V-Evrópu á 19. öld, og sjúkdómurinn í nautgripum algengur, þá er það ekki fyrr en upp úr 1880 að berklasýkillinn fannst og mönnum fer að verða ljóst eðli sjúkdómsins og gangur hans.
Magnús Einarson dýralæknir hóf störf hér á landi árið 1896 en frá árinu 1905 hafði hann með höndum  alla heilbrigðisskoðun á nautgripum sem komu til slátrunar í Reykjavík. Telur hann árið 1922 að berklaveiki  í nautgripum sé ekki til á Suðurlandi, ella hlyti hann að hafa orðið hennar var í þeim 9000 gripum sem hann hafði þá skoðað. Þá gerði Magnús skömmu fyrir 1920 berklapróf á 100 kúm í nágrenni Reykjavíkur og reyndust þær allar neikvæðar.
Í Múlasýslum gerði Magnús berklapróf á nær 300 kúm. Telur hann 3% þeirra hafa verið grunsamlegar  og voru flestar þeirra af berklaheimilum. Ekki er upplýst hvort þessir grunsamlegu gripir voru rannsakaðir nánar. Árið 1922 rannsakaði Hannes Jónsson dýralæknir kýr í Arnarfirði og svöruðu þrjár kýr í Neðri-Hvestu  jákvætt við inndælingu á tuberculini undir húð. Þar á bæ hafði orðið að drepa eina kú haustið 1917, sem var orðin mæðin, mögur og hóstandi. Lungun reyndust alsett gulum þrimlum og brjóst- og búkhimna alsett
stærri og minni nöbbum alla leið aftur að grindarhala. Önnur álíka var drepin 1919 og orðasveim heyrði Hannes um það að fleiri kýr þar um slóðir en þessar hefðu verið „óhreinar innvortis" er þær voru drepnar. Ein þeirra þriggja sem jákvætt svöruðu var mögur. Var hún drepin „kom þá fram að öll lungun voru alsett títuprjónshausstórum að 25 eyrings stórum gulum meir eða minna ostuðum þrimlum. Bronchialkirtlar sumir allt að hnefastórir með stærri og minni ostuðum stykkjum, smá kalkanir í sumum þeirra. Aðrir lymphukirtlar t.d. mesenterial og júgurkirtlar allmikið þrútnir og minni partar af þeim virtust byrjaðir að osta.“
Í skýrslu til ráðuneytisins 19. nóvember 1922 telur Magnús Einarson auðsætt að fyrsta kýrin á Neðri-Hvestu,  „hver sem hún hefur verið hafi sýkst af manni, sem komið hefur með nautaberkla í sér frá útlöndum, því um sýkingu frá útlendum nautgripum getur ekki verið að ræða, þar sem þeir hafa ekki verið innfluttir í manna minnum.“ Vegna þessara veiku gripa var gert berklapróf á öllum nautgripum í Arnarfirði, en ekki fundust fleiri gripir jákvæðir. Þess má geta að berklar komu fram í heimilisfólki á Neðri-Hvestu sem og í tveim stúlkum sem
þar höfðu dvalið. Voru uppi raddir um að þessi bráða smitun í fólki kynni að stafa frá hinum berklaveiku kúm á bænum, en ekki mun það hafa verið kannað nánar. Dýralæknar gerðu berklapróf á kúm víðsvegar um  land á þessum árum. Hannes Jónsson prófaði nær 90 kýr í Dalasýslu árið 1921 sem allar reyndust neikvæðar.
Jón Pálsson prófaði 222 gripi í Múlasýslu árið 1920 og svöruðu tvær kýr jákvætt, og munu þær báðar hafa verið á bæjum þar sem berklaveiki í heimilisfólki hafði orðið vart. Sama ár prófaði Sigurður Hlíðar eða lét prófa  á annað hundrað nautgripi í Eyjafirði, Siglufirði og víðar og svöruðu allt að 18% jákvætt, þótt Sigurður teldi síðar að sum af þessum svörum hefðu verið nokkuð vafasöm. Þeir gripir sem jákvætt svöruðu voru felldir, þar sem tilgangurinn var að uppræta sjúkdóminn. Enginn þessara gripa bar klínisk einkenni um berklaveiki. Sigurður taldi
ekki ósennilegt að gripir þessir hefðu orðið fyrir smiti frá fólki, en berklaveiki var algeng meðal fólks í þessum sveitum um þetta leyti.
Árið 1923 voru sett sérstök lög um berklaveiki í nautgripum. Með lögum þessum er öllum sem nautgripi hafa undir höndum skylt að tilkynna dýralækni hið fyrsta um öll sjúkdómstilfelli er vekja grun um berklaveiki.
Ennfremur geyma lög þessi heimild um niðurskurð, samgöngubann, bætur o.s.frv. ef berklaveiki verður vart. Sem betur fer hefur lítið þurft að beita þessum lögum. Bragi Steingrímsson dýralæknir gerði berklapróf á nær 800 nautgripum í Reykjavík og nágrenni á árunum 1934–1935. Þrír gripir svöruðu jákvætt og voru þeir felldir. Á stríðsárunum gerðu
dýralæknar á vegum Bandaríkjahers berklaprófanir á þúsundum nautgripa víðsvegar um land og reyndust allir neikvæðir.
Um 1950 fór að bera allnokkuð á berklahnútum í garnaeitlum úr svínum sem slátrað var í Reykjavík. Voru í því sambandi gerð berklapróf á nautgripum á býlum þar sem einnig var stunduð hænsna- eða svínarækt. Af þeim 433 nautgripum sem voru prófaðir sýndu 26 jákvæða útkomu með avian tuberculini og voru niðurstöður túlkaðar þannig að gripirnir hefðu orðið fyrir smiti af völdum fuglaberkla. Engir gripir sýndu einkenni berklaveiki og frekari ráðstafanir voru ekki gerðar með gripi þessa.
Þegar varnarlið úr her Bandaríkjamanna tók við vörslu Keflavíkurflugvallar 1951 komu fljótlega fram kröfur um að berklaprófa skyldi kýr á bæjum sem seldu óunna mjólk  til  Mjólkursamsölunnar í Reykjavík. Voru því á annað þúsund nautgripir í nærsveitum Reykjavíkur berklaprófaðir árin 1952–1953 en ekki fannst neinn gripur er sýndi jákvæða útkomu.
Lang yfirgripsmestu berklaprófanir í nautgripum voru gerðar að ósk varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli árin 1959, 1965 og 1971. Árið 1959 voru allir nautgripir eins árs og eldri á svæðinu frá Snæfells- og Hnappadalssýslum suður og austur í V-Skaftafellssýslu,alls 21.589 gripir prófaðir. 35 gripir svöruðu jákvætt án einkenna um berklaveiki. Þeir voru felldir en aðeins í einum þeirra fundust berklabreytingar, sem við ræktun reyndist fuglaberklar.
Árið 1965 voru prófaðir 23.718 gripir á sömu slóðum, að viðbættri A-Skaftafellssýslu. Af þeim svöruðu 21 jákvætt. Þegar gripir þessir voru felldir fundust ekki merki um berklaveiki í neinum þeirra, en þrír þeirra voru garnaveikir. Árið 1971 voru 23.272 nautgripir alls í áðurnefndum landshlutum enn prófaðir á sama hátt og áður. Alls sýndi 41 gripur jákvæða útkomu við húðpróf, þeir voru felldir en ekki varð vart berklaskemmda í neinum þeirra. Allar berklaprófanir á nautgripum sem hér er drepið á staðfesta þá skoðun sem Magnús Einarson lét í ljós í skýrslu til atvinnumálaráðuneytisins árið 1922 þar sem hann segir „en hvað sem einstökum
tilfellum líður er ég alsannfærður um það, að berklaveiki í nautgripum sé afar sjaldgæf hér á landi, þegar litið er til alls landsins í heild.“


Berklaveiki í svínum
Allar þrjár tegundir berkla geta lagst á svín en eru misskæðar. Nautaberklar munu oftast valdir að alvarlegri berklaveiki í svínum.Fuglaberklar valda venjulega aðeins eitlabólgu á háls- og
hengiseitlum. Svipuðu máli gegnir um mannaberkla en er fátítt. Þó geta þessar síðarnefndu tvær tegundir berklasýkla valdið berklaveiki við sérstök skilyrði, einkum ef smágrísir verða fyrir
smiti og smitmagn er mjög mikið. Magnús Einarson mun fyrst hafa orðið var við berkla í svínum
hér á landi árið 1906. Var þar um að ræða innflutt svín frá Noregi. Var svínunum lógað og urðu ekki frekari eftirköst af því máli. Við kjötskoðun í Reykjavík hefur stöku sinnum orðið vart við
berklaskemmdir í svínum. Nær alltaf hefur verið um að ræða skemmdir í hengiseitlum. Einna mest bar á þessu á fyrstu árunum eftir síðustu styrjöld, en algengt var þá að nota matarleifar frá
hermannaskálum, ósoðnar, sem fóður fyrir svín. Í þessu fóðri voru að sjálfsögðu bæði svína- og hænsnaleifar og því ekki ósennilegt að þar kunni að hafa leynst líffæri eða eitlar sýkt af hænsnaberklum. Þess má geta í þessu sambandi að tvær veirupestir, svínapest og
blöðruþot, bárust á þessum árum í íslenska svínastofninn með ósoðnum matarleifum frá hermannaskálum og ollu verulegu tjóni.
Það var ekki fyrr en árið 1957 að fyrirskipað er að sjóða matarleifar af þessu tagi ef þær eru ætlaðar til skepnufóðurs. Þá sjaldan ræktun hefur verið gerð á eitlum úr svínum sem sýnt
hafa breytingar sem eru berklakyns, hefur smitið verið af völdum fuglaberkla. Ekki er vitað til þess að svín sem smitast hafa af berklaveikisýklum hafi borið nein einkenni um berklaveiki. Þau virðast alltaf hafa verið frískleg og í góðum holdum.


Berklaveiki í sauðfé
Berklaveiki í sauðfé mun vera mjög sjaldgæfur sjúkdómur. Nautaberklar geta valdið útbreiddri berklaveiki í sauðfé en fuglaberklar eru því ekki eins hættulegir, valda oftast fyrst og fremst eitlabólgu. Mannaberklar virðast lítið skaðlegir sauðfé, og tilraunir til að sýkja sauðfé með mannaberklum hafa yfirleitt ekki borið neinn árangur. Berklasmit í sauðfé hefur mjög sjaldan fundist hér á landi og þá sjaldan sem berklaskemmdir finnast eru þær bundnar við hengiseitla sem greinilegir hnútar. Þegar ræktun á sýklum hefur tekist hefur komið í ljós að um fuglaberkla hefur verið að ræða og oftar en ekki hefur komið í ljós að hænsni hafa verið geymd undir sama þaki og sauðfé. Við kjötskoðun á sláturhúsum hefur mjög sjaldan orðið vart við bólgur sem grunur leikur á að væru berklakyns og aldrei hefur þess orðið vart hér á landi svo að vitað sé að kindur hafi sýnt sjúkleg einkenni um berklaveiki.
Sigurður Hlíðar dýralæknir taldi að hann hafi rekist á 4 berklatilfelli í öllu því sauðfé sem hann skoðaði fyrstu 25 starfsár sín, eða u.þ.b. 600 þúsund fjár alls.


Berklaveiki í hrossum
Hross fá sjaldan berkla jafnvel þótt þau séu í nánu sambýli við berklaveikar kýr eða hænsni. Hér á landi hefur berklaveiki verið staðfest í hrossum í eitt skipti að minnsta kosti. Veikin kom upp í stóði í V-Húnavatnssýslu sem af kynbótaástæðum hafði verið haldið sér í nokkur ár. Ekki voru aðrar skepnur á bænum og ekki vitað til þess að hrossin hefðu samgang við aðrar skepnur. Í ágústmánuði 1974 var tekið eftir því að tvö hross lögðu óeðlilega mikið
af miðað við önnur hross í stóðinu. Var talið að hrossin hefðu fengið lungnabólgu. Lyfjameðferð kom þó að engu gagni og þegar smá dró af öðru hrossinu var það fellt, 4 vetra hryssa.Við skoðun á lungum fundust margir vel afmarkaðir, fleskkenndir misstórir hnútar 3–4 cm í þvermál. Í miðju þeirra fannst grágulur ostkenndur gröftur. Svipaðir hnútar sáust bæði í lifur og milti. Berklasýklar voru ræktaðir og kom í ljós að hér var um sýkingu með fuglaberklum
að ræða. Þar sem ekki hafði áður fundist berklaveiki í hrossum, voru sýni send til Statens Veterinære Serumlaboratorium í Kaupmannahöfn. Var það staðfest með ræktun og sýkingartilraunum að um fuglaberkla væri að ræða. Þess var helst getið til að
hross þessi hefðu sýkst af fugli sem hélt sig mikið í beitilandi hrossanna, en á það verða seint færðar neinar sönnur. Ekki virðist hafa orðið meiri brögð af þessari berklaveiki, og voru þó engar sérstakar ráðstafanir gerðar til þess að uppræta smitið, enda erfitt við að eiga þar sem ekki er mikið að byggja á berklaprófi í hrossum.

Berklaveiki í hundum og köttum
Hér á landi hefur ekki fundist berklaveiki í hundum og köttum enda ekki verið sérstaklega eftir því leitað. Hundar geta sýkst bæði af mannaberklum og nautaberklum og sumstaðar erlendis er berklaveiki í hundum ekki óalgeng. Kettir sýkjast oftast af nautaberklum en sjaldan ber það við að þeir sýkist af mannaberklum. Allmörg dæmi eru um það erlendis að hundar hafi sýkt börn af berklum. Væri ástæða til þess að gefa máli þessu meiri gaum, ekki síst ef kjölturökkum fjölgar hér á landi.


Berklaveiki í fuglum
Berklar í fuglum voru fyrst staðfestir hér á landi í hænu frá Hafnarfirði árið 1933. Voru ræktaðir berklasýklar úr hænu þessari á Rannsóknastofu Háskólans. Síðan hafa berklar fundist í hænsnum einkum frá sveitabæjum víða um land. Svo virðist sem fuglaberklar hafi alls ekki verið fátíðir hér á landi meðan sá vani var almennur að láta hænsni í sveitum og þorpum vera frjáls ferða sinna og farga hænum fyrst þegar þær voru orðnar mjög gamlar og endurnýja stofninn með því að láta hænur liggja á eggjum og unga út öðru hverju. Berklaveiki í hænsnum er fyrst og fremst bundin við meltingar veginn. Utan á görnum finnast djúp sár sem líta út eins og smá æxli eða hnútar, full af draflakenndum greftri, sem er morandi af berklasýklum. Saur úr berklaveikum hænum er því að jafnaði mjög mengaður berklasýklum. Oft er einnig miklar berklaskemmdir að finna í milti og lifur. Berklaveiki dregur að sjálfsögðu mjög úr þrifum fuglanna og varpi, en sjaldan kemur það fyrir að berklasýklar finnist í eggjum. Oft ganga fuglar lengi með berklaveiki áður en yfir lýkur.


Niðurlag
Venjulega hefur berklasmit ekki leitt til þess að dýrin yrðu sjúk eða smitberar. Allt bendir til þess að auk hænsna séu villtir fuglar hér á landi stundum valdir að þessum smitunum. Hinsvegar hefur ekki enn verið hafist handa um skipulega rannsókn á útbreiðslu berkla í villtum fuglum hér á landi, en slíkt má ekki dragast öllu lengur. Mun hér einkum koma til álita þær fuglategundir sem um varptímann lifa í þéttu nábýli þar sem hundruð, jafnvel þúsundir unga og fullorðinna fugla hafast við á mjög takmörkuðu svæði nokkurt skeið.
Síðustu áratugi eftir að yfirleitt var farið að slátra búfé á sláturhúsum þar sem heilbrigðisskoðun á líffærum er gerð, gafst betra tækifæri en áður til að fylgjast með því hvort sjúkdómar á borð við
berkla leynist með húsdýrum hér á landi. Hefur heilbrigðiseftirlit þetta staðfest það sem áður var haldið fram að berklaveiki í búfé á Íslandi sé fátíður sjúkdómur en komi þó fyrir við og við í einhverri mynd.
Berklaveiki í fólki var algeng ef ekki algengasta dánarorsök hér á landi fyrri hluta 20. aldar. Berklaræktanir hafa farið fram á Rannsóknastofu Háskólans síðan hún tók til starfa í húsakynnum við Barónstíg árið 1934, þegar grunur lék á að um berkla væri að ræða. Jákvæðar ræktanir úr berklaveiku fólki skipta nú þúsundum.
Aldrei munu nautaberklar hafa fundist við þessar berklaræktanir, enda þótt sumir stofnar sem einangraðir hafa verið úr fólki hafi sýnt nokkur frávik við ræktun og næmispróf frá venjulegu
mynstri mannaberkla.
Við athugun á þeim miklu gögnum sem tiltæk eru um þessar rannsóknir, bendir allt til þess að orsök berklaveiki í fólki hér á landi sé af völdum mannaberkla og húsdýr hafi lítið eða ekki
komið þar við sögu.

Ritstjórn.

Helstu heimildir.

1. Birna Oddsdottir: Orfa ord um berklaraktanir. Blad meinatakna. 1. tbl.,1986, 17–18.

2. Frank A. Todd: Milk Control Program of U.S. Forces in Iceland. The Bulletin of the U.S. Army Medical Department. No. 4, Vol. V, 1946, 463-467.

3. Frank A Todd: Brefleg heimild, 1959.

4. Gudmundur Gislason: Breflegar og munnlegar heimildir.

5. Halldor Kristjansson: Athiologiske undersogelser over den kirurgiske

Tuberkulose i Bornealderen. Kbh. 1930, Doktorsritgerd.

6. Halldor Vigfusson og Gudmundur Gislason: Fuglaberklar. Freyr 41, 1946, 223–227.

7. Halldor Vigfusson: Brefleg heimild, 1976.

8. Hannes Jonsson: Skyrsla til Atvinnu- og Samgongumalaraduneytisins, september 1922.

9. Magnus Einarson: Bunadarrit, 15, 1901, 125–161.

10. Magnus Einarson: Skyrsla til Atvinnu- og Samgongumalaraduneytisins, november 1922.

11. Niels Dungal: Skyrsla Rannsoknarstofu Haskolans 1934–1959, Reykjavik 1962.

12. Niels Dungal: Occurrence and manifestation of Tuberculosis in Iceland.Acta Tuberc. Scandinavia, 19, 1945, 275–308.

13. Snorri Jonsson: Husdyrhold og Husdyrsygdommer i Island.Tidskr. f. veterinarer, Kbh, 1879, 137–177.

14. Sigurdur Ein. Hlidar: Samband mannaberkla og nautaberkla, Akureyri, 1920.

15. Sigurdur Ein. Hlidar: Saudfe og Saudfjarsjukdomar, Akureyri, 1937.

16. Sigurdur Sigurdsson: Tuberculosis in Iceland. Epidemiological Studies,Washington DC, 1950, Doktorsritgerd.

17. Sigurdur Sigurdsson: Um berklaveiki a Islandi. Laknabladid, 62, 1976, 1–50.

18. Valtyr Stefansson: Berklaveiki i nautpeningi. Freyr, 20, 1923, 19–21.

19. Turidur Arnadottir o.fl.: Berklaveiki a Islandi 1975–1986. Laknabladid, 75, 1989, 209–216.

20. Heilbrigdisskyrslur, Reykjavik, 1959, 86–87.

Þessi grein er stytt og endursögð grein sem birtist i Búnaðarritinu, 103. árg., 1990.

laugardagur 23 febrúar 02 2019
Nýjustu fréttir
Yfirlýsing fagráðs um velferð dýra vegna máls Brúneggja...
Yfirlýsing frá Dýralæknafélagi Íslands 2.desember...
Silja Unnarsdóttir, Kristbjörg Sara Thorarensen, Helga Høeg...

Dýralæknatal, búfjársjúkdómar og saga

fæst hjá DÍ 3000 kr (dyr@dyr.is)

Atvinnuauglýsingar

Dýralæknastofa Dagfinns leitar að dýralækni í smádýrapraksís. Fullt eða hlutastarf kemur til greina.

 Upplýsingar í síma 5523622.

eða netfangi gauja@dagfinnur.is

Dýraspítalinn í Garðabæ óskar eftir að ráða afleysingardýralækni.

Um er að ræða frá áramótum og til 1. september 2018.

Stöðugildið er 100%. Reynsla skiptir ekki öllu máli en mikilvægt er að viðkomandi tali og skilji íslensku eða sé með mjög góða enskukunnáttu.

Dýraspítalinn í Garðabæ er rótgróinn spítali sem eingöng sinnir smádýrum.

Nánari upplýsingar fást með að hafa samband við undirritaða Hanna M. Arnórsdóttir dýralæknir hanna@dspg.is Jakobína Sigvaldadóttir dýralæknir bina@dspg.is Björn Árnason framkvæmdastjóri  bjorn@dspg.is