Eggert Gunnarsson
Notkun bóluefna til varnar sjúkdómum í dýrum

Inngangur

Hér á landi hafa um áratugaskeið verið notuð bóluefni til varnar
sjúkdómum í sauðfé. Notkun bóluefna í önnur dýr hefur til
skamms tíma verið sáralítil. Þó hafa breyttir búskaparhættir og ör
vöxtur í bæði hænsna- og svínaeldi leitt til aukinnar notkunar
bóluefna í þessum búgreinum. Einnig er talsverð notkun á bóluefnum
í fiskeldi og á seinni árum hefur notkun bóluefna í gæludýr
orðið umtalsverð. Í þessari grein verður í stuttu máli gerð grein
fyrir notkun bóluefna í sögulegu samhengi og framleiðslu ónæmisefna
hér á landi til varnar sjúkdómum í dýrum.


Upphaf bólusetninga
Hugtakið ónæmi er þekkt frá gamalli tíð. Gríski heimspekingurinn
Thukydid sem var uppi frá 460–400 f. Kr. veitti því t.d. athygli
að fólk fékk sjaldnast sama smitsjúkdóminn tvisvar sinnum. Í Kina
var dregið úr tíðni bólusóttar með því að taka skorpur af bólusóttarsjúklingum
og nudda í sár á litlum börnum og kom það í veg fyrir
að þau fengju bólusótt síðar á ævinni. Í Evrópu var svipaðri aðferð
beitt til þess að draga úr tíðni nautapestar á 17. öld. Upphaf
bólusetningar til varnar sjúkdómum í hinum vestræna heimi er þó
oftast rakið til enska læknisins Edwards Jenner sem var uppi
1749–1823. Hann hafði veitt því eftirtekt að mjaltastúlkur fengu
síður bólusótt en annað fólk. Hins vegar fengu þær oft kúabólu
sem er miklu mildari sjúkdómur í mönnum en bólusóttin. Jenner
ályktaði sem svo að kúabólusmit veitti vörn gegn bólunni. Árið
1796 smitaði hann ungan dreng með kúabólu og 6 vikum seinna
reyndi hann að smita drenginn af bólusótt en hann veiktist ekki.
Bólusetning með kúabólu til varnar bólusótt hefur síðan verið beitt
um allan heim og tæpum 200 árum eftir fyrstu tilraun Jenners

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Stofnunin var sett á laggirnar
1948 til rannsókna á búfjársjúkdómum. Ein af meginstoðum starfseminnar hefur frá
upphafi verið framleiðsla á bóluefnum og mótefnasermi til varnar sauðfjársjúkdómum.

lýsti Alþjóða heilbrigðisstofnunin því yfir að búið væri að útrýma
bólusótt í heiminum.
Franski efnafræðingurinn og örverufræðingurinn Louis Pasteur
(1822–1895) notaði orðið „vaccination“ yfir þessa aðferð til varnar
smitsjúkdómum til heiðurs Jenner. Uppruna orðsins má rekja
til latneska orðsins „vacca“ sem þýðir kýr. Íslenska orðið bólusetning
vísar sömuleiðis til þessarar fyrstu tilraunar Jenners til þess að
verjast bólusóttinni. Pasteur gerði fjölmargar tilraunir með bóluefni,
m.a. Pasteurella bóluefni gegn fuglakóleru og bóluefni gegn
miltisbrandi í nautgripum sem olli miklu tjóni víða í Evrópu á 18.
og 19. öld. Pasteur uppgötvaði m.a. að sýklar sem höfðu verið
veiklaðir þannig að þeir ullu ekki sjúkdómi gátu hins vegar veitt
ágæta vörn gegn sjúkdómnum. Merkustu rannsóknir Pasteurs á
þessu sviði eru þó tvímælalaust tilraunir hans með bóluefni gegn
hinum hræðilega sjúkdómi hundaæði. Á síðustu áratugum 19. aldar
voru gerðar margar merkar uppgötvanir á þessu fræðasviði.
M.a. uppgötvuðu menn að gera mátti bakteríur óvirkar með hitameðhöndlun
eða formalíni og nota sem bóluefni og sömuleiðis mátti afeitra mörg eiturefni sjúkdómsframkallandi baktería með formalíni og nota sem bóluefni.

Þessar uppgötvanir lögðu grunninn
að þróun bóluefna gegn sjúkdómum eins og stífkrampa og
öðrum clostridiumsjúkdómum í mönnum og dýrum, t.d. bráðapest
og lambablóðsótt.
Önnur merk uppgötvun frá þessum tíma er að sermi frá sjúklingum
sem höfðu gengið í gegnum veikindi gaf ákveðna vörn
gegn sjúkdómnum. Sömuleiðis sermi frá einstaklingum sem höfðu
verið bólusettir. Þessa vitneskju hafa menn síðan notað til framleiðslu
á mótefnasermi, fyrst og fremst í hrossum, til þess að fyrirbyggja
sjúkdóma en einnig til lækninga. Notkun mótefnasermis
var mikil áður fyrr, einkum fyrir tíma fúkkalyfjanna og einnig
vegna þess að aðferðin þótti öruggari en bólusetning því oft kom
fyrir að veiklun sýklastofna tókst ekki sem skyldi og bólusetning
gat því haft þveröfug áhrif við það sem til var ætlast og valdið sjúkdómi
í stað þess að vernda gegn honum. Eftir því sem tækninni við
bóluefnisframleiðslu hefur fleygt fram hefur þó dregið mjög úr
notkun mótefnaserma.


Notkun bóluefna gegn dýrasjúkdómum á Íslandi
Íslenskur búfénaður er laus við marga þá sjúkdóma sem hrjá
dýr erlendis. Þetta á einkum við um marga veirusjúkdóma. Þar af
leiðandi er notkun bóluefna ekki jafn almenn hér á landi og víða
erlendis. T.d. eru engin bóluefni notuð í nautgripi og einungis
stöku sinnum gripið til þess að bólusetja hross gegn stífkrampa og
botulisma (hræeitrun). Það er helst í sauðfjárrækt að beitt er bólusetningum
og þá gegn sjúkdómum af völdum baktería sem eru útbreiddar
í náttúrunni eins og t.d. Clostridium og Pasteurella bakteríum
eða bakteríusjúkdómum sem borist hafa hingað til lands
með innflutningi og ekki hefur tekist að útrýma með niðurskurði
eða eftir öðrum leiðum eins og t.d. garnaveiki. Þessi bóluefni eru
að mestu framleidd innanlands. Hér á landi hefur lengstum verið
ráðandi mjög íhaldssöm stefna varðandi notkun á innfluttum bóluefnum.
Þetta á sérstaklega við um lifandi bóluefni. Oft eru bóluefni
samsett og innihalda smitefni sem ekki eru til staðar hér á landi og
yfirvöld vilja ekki fá inn í landið. Erlendis frá eru fjölmörg dæmi
um að upp hafi komið sjúkdómar vegna mengunar á bóluefnum
eða vegna þess að bóluefnisstofnar hafa ekki verið veiklaðir sem
skyldi og því valdið sjúkdómi í stað þess að vernda gegn honum.

Dæmi er um að bóluefni gegn bólusótt hafi verið mengað með ginog
klaufaveiki veirunni. Þá eru dæmi um að gin- og klaufaveiki hafi
komið upp vegna ófullnægjandi veiklunar bóluefnisstofna. Notkun
bóluefna getur því í sumum tilvikum haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.
Eitt versta dæmið úr sögunni er dreifing riðu í sauðfé á Bretlandseyjum
á millistríðsárum síðustu aldar með bóluefni gegn
„Louping ill“. Til framleiðslu á bóluefninu var notaður heilavefur
úr sauðfé sem síðar sýndi sig að hafa í nokkrum tilvikum verið
smitað af riðu. Þetta varð til þess að riða dreifðist um allar Bretlandseyjar
með bóluefninu. Með bættri tækni og tækjabúnaði til
bóluefnaframleiðslu og auknum gæðakröfum og eftirliti með framleiðslunni
hafa líkurnar á slysum af þessu tagi minnkað. Þó eru
dæmi um óæskileg áhrif bólusetningar frá síðustu árum. Við bólusetning
á svínum í Danmörku gegn sjúkdómnum bláeyra (PRRS,
Porcine Respiratory and Reproductive Syndrome) olli bóluefnisstofninn
sjúkdómi sem dreifðist í dönskum svínabúum líkt og sjúkdómsframkallandi
stofn veirunnar. Þegar tekin er afstaða til notkunar
á innfluttum bóluefnum hér á landi þarf því alltaf að vega og
meta áhættuna miðað við ávinninginn. Á síðustu árum hefur notkun
innfluttra bóluefna í svína- og hænsnarækt og fiskeldi aukist. Þá
hafa um árabil verið notuð innflutt bóluefni í gæludýr eins og t.d.
hunda og ketti.


Innlend bóluefnisframleiðsla
Upphaf framleiðslu bóluefna gegn dýrasjúkdómum hér á landi
má rekja allt til ofanverðrar 19. aldar. Sá sjúkdómur sem olli sauðfjárbændum
hvað mestum búsifjum fyrr á öldum var bráðapestin,
bakteríusjúkdómur af völdum Clostridium septicum. Sjúkdómnum
var lýst hér á landi þegar á 18. öld. Olli hann oft miklu tjóni á vissum
landsvæðum. Sjúkdómurinn var þekktur víða um lönd, t.d. í
Noregi og á Bretlandseyjum. Um miðja 19. öld virðast menn vera
farnir að gera sér grein fyrir að orsök veikinnar er smit af einhverjum
toga en engin haldgóð ráð fundust þó til að verjast veikinni
þó að ýmislegt væri reynt.
Það var norski dýralæknirinn Ivar P. Nielsen (1855–1939) sem
sýndi fram á að ákveðna sýkla, sem hann nefndi Vibrio septicque,
væri alltaf að finna í bráðapestarkindum. Árin 1891–1893 fór
hann að gera tilraunir með bóluefni. Tókust þær vonum framar.
Veturinn 1895–1896 kynnti ungur íslenskur búfræðingur, Hólmgeir Jensson,                               sér tilraunir Nielsens og heimkominn hóf hann að gera tilraunir með framleiðslu bráðapestarbóluefnis. Fleiri Íslendingar
reyndu fyrir sér með gerð bóluefnis eftir að grein eftir Nielsen
birtist í þýðingu í Ísafold 1894, en flestar tilraunir mistókust
að miklu leyti því margt fé drapst af völdum bólusetningar. Árið
1896 kom út bæklingur „Bráðabirgðaleiðbeining í bólusetningu og
annarri meðferð á bráðapest í sauðfé“ eftir norska dýralækninn
J.N. Bruland sem Alþingi hafði kostað hingað til lands til þess að
rannsaka bráðapestina og leiðbeina um gerð bóluefnis samkvæmt
aðferð Nielsen. Bóluefni Nielsen samanstóð af þurrkuðum, muldum
nýrnavef úr sjálfdauðri pestarkind blönduðum í vatni. Ýmsir
öðluðust færni og reynslu í gerð þessa bóluefnis og höfðu nokkurn
árangur. Er þetta fyrsta bóluefnið sem farið var að nota hér á landi
til varnar búfjársjúkdómi.
Árið 1897 fór síðan Magnús Einarson dýralæknir (1870–1927)
að nota svokallað „danska bóluefnið“. Það bóluefni samanstóð af
hreinum pestargróðri og byggði á rannsóknum prófessors C.O.
Jensen í Kaupmannahöfn á bráðapest, en þær stundaði hann af
mikilli kostgæfni um áratuga skeið. Hér á landi voru reyndar
nokkrar gerðir þessa danska bóluefnis á meðan á skipulögðum tilraunum
stóð, en það bóluefni sem varð síðan ofan á var svokallað
„serovaccine“, sem samanstóð af pestarsýklasporum og sermi úr
hrossum sem dæld höfðu verið reglulega með gróðri af pestarsýklum.
Þetta bóluefni var notað hér á landi um nær fjögurra áratuga

Niels P. Dungal.
skeið. Talsvert fyrirhafnasamt var að nota
bóluefnið. Það samanstóð af dufti sem þurfti
að mylja og hræra út í mortéli og krafðist
vandvirkni og mikils hreinlætis. Fyrir kom
að slys urðu en engu að síður leiddi notkun
þess til þess að verulega dró úr tjóni af völdum
þessa sjúkdóms.
Laust fyrir 1930 hóf prófessor Niels P.
Dungal síðan tilraunir með nýja tegund
bóluefnis. Það var talsvert frábrugðið
danska bóluefninu og samanstóð af sýklagróðri
og eiturefnum sýklanna sem hvoru
tveggja hafði verið gert óvirkt með formalíni.
Bóluefnið var látið af hendi í sérstökum glösum með gúmmítappa.
Þetta bóluefni hefur verið framleitt hér á landi allt til þessa dags samkvæmt forskrift Dungals, fyrst á Rannsóknastofu Háskólans
en síðustu áratugina á Tilraunastöðinni að Keldum.
Auk fyrrnefnds bóluefnis gegn bráðapest (Clostridium septicum)
er framleitt á Keldum bóluefni gegn öðrum Clostridium sjúkdómum
eins og lambablóðsótt (C. perfringens týpa B) og garnapest
(C. perfringens týpa D). Þá er framleitt bóluefni gegn garnaveiki
af völdum Mycobacterium paratuberculosis (Mycobacterium
avium subsp. paratuberculosis) og bóluefni gegn lungnapest af
völdum Pasteurella sýkla. Einnig eru framleidd mótefnasermi í
hrossum gegn lambablóðsótt og garnapest. Páll Agnar Pálsson
(1919–2003), sem lengst af starfsævinnar starfaði sem sérfræðingur
á Tilraunastöðinni jafnframt því sem hann gegndi stöðu yfirdýralæknis,
kom þessari framleiðslu á laggirnar og var í forsvari
fyrir henni á meðan hann starfaði á Keldum.
Notaðar eru hefðbundnar aðferðir við framleiðslu bóluefnanna
og hafa þær lítið breyst í áranna rás. Byggjast þær á því að sýklarnir
eru ræktaðir upp í stórum stíl og síðan drepnir eða gerðir
óvirkir með formalíni, fenóli eða upphitun.
Mótefnasermi er framleitt með því að sprauta óvirku eitri
sýklanna í hross og þau síðan látin framleiða mótefni gegn þeim.
Hrossunum er síðan tekið blóð og sermið notað til að verja lömb
gegn sýkingum. Þegar framleiðslan var hvað mest voru um 30
hross í mótefnaframleiðslu á Keldum.
Bóluefnin sem framleidd eru að Keldum eru svokölluð dauð
bóluefni, þ.e. sýklarnir hafa verið gerðir óvirkir. Það eru því engar
líkur á því að með þeim berist óæskileg smitefni eða að bóluefnisstofninn
breytist og fái aftur sýkingarhæfni, eins og komið
getur fyrir þegar um er að ræða lifandi eða veikluð bóluefni.
Clostridium og lungnapestarbóluefni eru til varnar sjúkdómum af
völdum baktería sem eru alls staðar í umhverfi dýranna og verður
ekki útrýmt. Eina og jafnframt kostnaðarminnsta ráðið gegn
þessum sjúkdómum er bólusetning. Hér á eftir verður gerð nánari
grein fyrir þessum bóluefnum.


Bóluefni og sermi gegn lambablóðsótt
Lambablóðsótt er víða landlæg og finnst sýkillinn, Clostridium
perfringens B, í jarðvegi og kindasaur. Fullorðnar kindur eru smitberar
og sóttmenga hús og haga. Verja má nýfædd lömb gegn
lambablóðsótt með því að bólusetja ærnar á meðgöngu, þannig að

Páll Agnar Pálsson (1919–2003) yfirdýralæknir og sérfræðingur á Keldum við blóðtöku
úr sermishesti. Honum til aðstoðar er Jón Guðmundsson (1918–1993) bústjóri á Keldum
og Auður Ingólfsdóttir starfskona á Keldum. Páll Agnar byggði upp bóluefnisframleiðsluna
á Keldum og veitti henni faglega forstöðu um árabil meðfram öðrum störfum.

þær framleiði mótefni gegn lambablóðsóttinni sem þær síðan skila
yfir í lömbin með broddmjólkinni. Bóluefni gegn lambablóðsótt
var fyrst notað hér á landi 1937 og hefur verið framleitt á Keldum
alla tíð. Bóluefnið er blanda af lambablóðsóttarsýklum og eiturefnum
sýklanna sem gerð hafa verið óvirk með formalíni. Mælt
hefur verið með því að að bólusetja ærnar tvisvar fyrir fyrsta burð
og síðan árlega. Á seinni árum hefur bóluefni gegn lambablóðsótt
verið framleitt sem hluti af blönduðu bóluefni gegn lambablóðsótt,
garnapest og bráðapest.
Sermi gegn lambablóðsótt hefur verið framleitt á Keldum allt
frá upphafsárum stofnunarinnar. Það er notað í lömb á bæjum þar
sem ærnar hafa ekki verið bólusettar. Sprauta þarf lömbin á fyrsta
sólarhring eftir burð.


Bóluefni og sermi gegn garnaeitrun og flosnýrnaveiki
Clostridium perfringens D veldur tvenns konar sjúkdómum í
sauðfé, annars vegar flosnýrnaveiki í lömbum snemma á vorin
eða sumrin (sjaldnast í alveg nýfæddum lömbum) og hins vegar
garnaeitrun í eldra fé á haustin. Bóluefni hefur verið framleitt á
Keldum allt frá árinu 1972 og búið til á svipaðan hátt og lambablóðsóttarbóluefnið.
Bóluefnið er notað í ær rétt fyrir burð eins og
lambablóðsóttarbóluefnið, í lömb ca. 3 vikna gömul og í yngra fé
á haustin. Mjög er mismunandi eftir bæjum hvort nauðsynlegt er
að bólusetja gegn þessum sjúkdómi og þá hvaða aldurshóp. Á
seinni árum hefur bóluefni gegn garnaeitrun/flosnýrnaveiki verið
framleitt sem hluti af blönduðu bóluefni.
Á Keldum er framleitt mótefnasermi í hrossum gegn garnapest
til notkunar í lömb á vori, en notkun er fremur lítil.
Bóluefni gegn bráðapest
Bráðapestar af völdum Clostridium septicum verður vart á
haustin og snemma vetrar. Það er helst yngra féð sem veikist. Eins
og áður segir var bóluefni fyrst framleitt hér á landi af prófessor
Niels Dungal um 1930 og var framleitt á Rannsóknastofu Háskólans
allt til ársins 1975 er framleiðslan var flutt upp að Keldum.
Bóluefnið er notað í yngra féð á haustin um leið og það kemur af
fjalli. Bóluefnið er framleitt bæði sem sérstakt bóluefni, en einnig
sem hluti af blönduðu bóluefni.

Blandað bóluefni gegn lambablóðsótt, bráðapest og garnapest
Um nokkurra ára skeið hefur verið framleitt á Keldum svokallað
blandað bóluefni gegn lambablóðsótt, garnapest og bráðapest.
Bóluefnið inniheldur sömu sýkla og eiturefni og bóluefni gegn
hverjum þessara sjúkdóma fyrir sig. Farið var út í að blanda þessum
bóluefnum saman til hagræðis fyrir bændur. Mælt er með að
yngra fé sé bólusett einu sinni til tvisvar á haustin, allt eftir því
hversu pestarhætt er á bænum. Síðan eru allar lambfullar ær
bólusettar einu sinni á vori u.þ.b. mánuði fyrir burð. Í flestum tilvikum
gefur þetta nægjanlega vörn. Á einstaka bæ getur þó þurft
að bólusetja ærnar tvisvar ef smitálag er mikið.


Bóluefni gegn lungnapest
Lungnapest af völdum Pasteurella sýkla kemur upp öðru hvoru
hér á landi. Oft er búið til bóluefni úr þeim stofni sem veldur veikinni
á hverjum stað. Bóluefnið sem framleitt er í dag samastendur
af þremur stofnum Pasteurella bakteríunnar, P. multocida, P.
trehalosis og Mannheimia haemolytica. Þær tvær síðast nefndu
gengu áður undir nafninu P. haemolytica. Bóluefnið er blanda af
sýklum og eiturefnum bakteríunnar sem gert hefur verið óvirkt
með fenóli. Þegar sjúkdómsins verður vart þarf að bólusetja allt fé
svo fljótt sem auðið er, einkum eldra fé. Síðan er nauðsynlegt að
bólusetja á hverju hausti, a.m.k. næstu 2 ár, um leið og fé er tekið
á hús. Ráðlegt er að bólusetja á nágrannabæjum ef lungnapestar
hefur orðið vart.


Bóluefni gegn garnaveiki

Garnaveiki, sjúkdómur af völdum bakteríunnar Mycobacterium
avium subsp. paratuberculosis, barst til landsins með innfluttu
karakúlfé 1933. Með þessum innflutningi var ætlunin að kynbæta
íslenska féð og auka verðmæti afurða en áhrifin urðu þveröfug.
Kindurnar, sem reyndust sjálfar alla tíð heilbrigðar, báru til landsins
mjög skæða sjúkdóma, þ.e. garnaveiki, visnu, þurramæði og
votamæði. Urðu íslenskir sauðfjárbændur fyrir gífurlegum búsifjum
á næstu áratugum af völdum þessara svokölluðu karakúlpesta.
Segja má að tilkoma þeirra hafi opnað mjög augu manna
fyrir nauðsyn á góðri aðstöðu til rannsókna á búfjársjúkdómum og
þannig átt sinn þátt í stofnun Tilraunastöðvarinnar að Keldum.
Talið er að 5 af 20 innfluttum kindum hafi borið garnaveikismit.

Á næstu 18 árum barst garnaveiki víða um land. Árleg dánartala
náði að meðaltali 8–9% á bæ en gat farið upp í 40% á einstaka
bæjum. Er talið að upp undir 100.000 fjár hafi drepist úr garnaveiki
á þeim árum sem veikin var í hámarki. Þegar sýnt varð að
ekki tækist að útrýma garnaveiki með niðurskurði eins og hinum
karakúlpestunum þróaði Björn Sigurðsson, fyrsti forstöðumaður
Tilraunastöðvarinnar, bóluefni til varnar. Um 1920 höfðu verið
gerðar tilraunir með bólusetningu gegn garnaveiki í Frakklandi,
en þegar Björn hóf tilraunir var þessari aðferð hvergi beitt í baráttunni
gegn þessum sjúkdómi. Tilraunir Björns og samverkamanna
stóðu í um áratug. Á þessu tímabili voru bólusett um 3000
lömb á um 140 bæjum og annar eins hópur hafður til samanburðar.
Rannsóknarefniviðurinn var gerður upp endanlega af Páli A.
Pálssyni að Birni látnum og var lokaniðurstaðan að með bólusetningu
mætti draga úr dánartíðni af völdum garnaveiki um 91 %.
Árið 1966 var gert skylt að bólusetja öll ásetningslömb á garnaveikisvæðum.
Skylt er að bólusetja öll ásetningslömb á tímabilinu
15. september til 31. desember. Reynslan hefur sýnt að sé rétt
staðið að bólusetningu og hún framkvæmd í tíma má halda tjóni
af völdum veikinnar í lágmarki. Á sumum landsvæðum hefur
hennar ekki orðið vart í meira en áratug.
Garnaveikibóluefnið samanstendur af tveimur garnaveikistofnum
sem drepnir hafa verið með upphitun, þurrkaðir, muldir og
síðan blandað saman við jurtaolíu og paraffínolíu í ákveðnum
hlutföllum. Ein bólusetning veitir ævilangt ónæmi. Einn helsti
ókostur þessa bóluefnis er að það veldur oft talsverðum bólgum á
stungustað.
Aðrar þjóðir hafa tekið upp svipaðar varnaraðgerðir gegn
garnaveiki og Íslendingar. Íslenskt garnaveikibóluefni hefur um
árabil verið flutt út til Færeyja. Bóluefnið hefur einnig verið notað
í tilraunaskini í fjarlægum löndum, t.d. í Indlandi.


Önnur bóluefni
Stöku sinnum kemur upp illskæð lungnabólga í alimink af völdum
Pseudomonas aeroginosa. Eina haldbæra ráðið til þess að
stöðva útbreiðslu veikinnar er að bólusetja á búunum þar sem
veikin kemur upp með bóluefni sem framleitt er úr þeim stofni
sem veldur veikinni hverju sinni. Þetta hefur verið gert nokkrum
sinnum þegar þess hefur gerst þörf.

Innflutt bóluefni
Það er ekki fyrr en um 1990 að farið var að flytja inn bóluefni
að einhverju marki til notkunar hér á landi, einkum í fiskeldi og í
alifugla- og svínaeldi. Fyrir þann tíma hafði einungis verið flutt inn
lítilræði af bóluefnum í gæludýr.
Fram til ársins 1997 sá Tilraunastöðin að mestu leyti um innflutning
og dreifingu þessara bóluefna en að kröfu Lyfjaeftirlits
ríkisins var þeirri starfsemi hætt og látin í hendur lyfjainnflutningsfyrirtækja.


Bóluefni í fiskeldi

Íslenskt fiskeldi hefur ekki farið varhluta af ýmsum smitsjúkdómum.
Fyrstu bólusetningar voru framkvæmdar árið 1985 gegn
vibríuveiki (Vibrio anguillarum) vegna útflutnings á seiðum til
Noregs. Næstu tvö ár var einnig bólusett gegn þessum sjúkdómi og
1987 einnig gegn hitraveiki (Vibrio salmonicida), einnig vegna útflutnings
á seiðum. Á næstu árum var enginn útflutningur og því
ekkert bólusett. Frá árinu 1991 hefur bólusetningum verið beitt í
vaxandi mæli í baráttunni gegn ýmsum sjúkdómum í fiskeldi innanlands,
m.a. gegn vibríuveiki, kýlaveikibróður (Aeromonas
salmonicida subsp. achromogenes), vetrarsárum (Moritella viscosa)
og hitraveiki. Þessi bóluefni eru öll framleidd erlendis en í
mörgum tilvikum með stofnum sem einangraðir hafa verið hér á
landi og byggja að verulegu leyti á rannsóknum vísindamanna á
Rannsóknadeild fisksjúkdóma á Keldum.

Bóluefni í alifuglaeldi
Fyrir tilstilli sérgreinadýralæknis í alifuglasjúkdómum hófst
skipulögð bólusetning í alifuglaeldi árið 1993 með bólusetningu
gegn hænsnalömun (Marek Disease). Árlega eru notaðir rúmlega
200.000 skammtar. Á árunum 1996–2001 voru stofnfuglar bólusettir
gegn barkabólgu (Infectious bronchitis, IB) og frá árinu 2001
hafa ákveðnir hópar holdastofna verið bólusettir gegn svokallaðri
blávængjaveiki (Chicken anemia virus, CVA) vegna sýkinga sem
komu upp árið 2000. Í öllum tilvikum er um veirusjúkdóma að
ræða. Notuð eru lifandi bóluefni.


Bóluefni í svínabúskap
Fram undir árið 1990 var notkun bóluefna í svínabúskap sáralítil                                                      og nánast aðeins í tilraunaskini á einstaka búum. Árið 1990
var hafin bólusetning gegn snúðtrýni (Pasteurella multocida og
Bordetella bronchiseptica) og illkynja lungnabólgu (Actinobacillus
pleuropneumoniae) á nokkrum búum. Með tilkomu embættis
dýralæknis svínasjúkdóma 1991 var hafin skipulögð greining og
skráning sjúkdóma í svínum og jafnframt hafin notkun bóluefna
með markvissum hætti til varnar ýmsum sjúkdómum í þessari eldisgrein.
Hafin var bólusetning gegn rauðsýki (Erysipelotrix insidiosa)
1991, smitandi fósturláti (parvoveirusýking) 1992, kólisýkingum
(Escherichia coli) og mycoplasmalungnabólgu 1993.


Bóluefni gegn sjúkdómum í gæludýrum
Laust fyrir 1980 var farið að flytja inn í smáum stíl samsett
bóluefni í ketti gegn öndunarfærasýkingum (rhinotracheitis og
caliciveirusýkingum) og kattafári (panleukopenia). Þetta bóluefni
er enn í notkun. Árið 1992 greindist hér á landi smáveirusótt í
hundum og var þá fljótlega farið að bólusetja gegn þessum sjúkdómi,
fyrst með dauðu bóluefni, en frá haustinu 2003 með lifandi,
veikluðum veirustofni. Um tíma var einnig á markaði samsett,
dautt bóluefni gegn smitandi lifrarbólgu (HCC) og smáveirusótt.
Einnig er nokkuð um að hundar sem fluttir eru til útlanda séu
bólusettir gegn hundaæði að kröfu innflutningslands.


Lokaorð
Á því leikur enginn vafi að í baráttunni gegn smitsjúkdómum
skiptir notkun bóluefna miklu máli. Þau bóluefni og mótefnasermi
sem eru framleidd hér á landi eru nánast skraddarasaumuð miðað
við íslenskar aðstæður, oftast úr stofnum sem einangraðir hafa
verið úr íslenskum efnivið. Framleiðsla og sala þessara ónæmisefna
hefur lengstum verið ein megin sértekjulind Tilraunastöðvarinnar
á Keldum og íslenskum sauðfjárbændum til mikilla hagsbóta.
Framtíð þessarar framleiðslu er hins vegar óljós. Minkandi
markaður vegna samdráttar í sauðfjárbúskap og auknar kröfur til
framleiðsluhúsnæðis og gæðaeftirlits veldur því að erfitt getur
orðið að láta þessa framleiðslu bera sig fjárhagslega. Það er því
viðbúið að þessi kafli í sögu baráttunnar gegn búfjársjúkdómum
hér á landi sé brátt á enda. Með aukinni þekkingu á sviði ónæmisfræði,
örverufræði og ekki minnst sameindaerfðafræði hefur
orðið mikil þróun á sviði bóluefnaframleiðslu. Hlutverk Tilrauna
stöðvarinnar mun í framtíðinni fyrst og fremst liggja á sviði rannsókna
á þessu sviði og tilrauna fremur en framleiðslu. En um sinn
er þó nauðsynlegt að stofnunin framleiði bóluefni, sem eru nánast
skraddarasaumuð miðað við íslenskar aðstæður og því ekki tiltæk
á alþjóðlegum markaði. Einnig er mikilvægt að hér á landi sé til
staðar þekking og aðstaða til þess að geta brugðist við ef óvæntan
vágest ber að garði. Innflutningi bóluefna fylgir viss áhætta Þróun
á þessu sviði hefur þó leitt til þess að sú áhætta er í flestum tilvikum
hverfandi.


Helstu heimildir:
Ársskýrslur Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
Brines R. Two hundred years on: Jenner and the discovery of vaccination.
Immunology Today 1996,17, 203–204.
Gudding, R. Immunprofylakse i veterinærmedisinen. Scandinavian Veterinary
Press. Oslo 2000, 325 bls.
Páll Agnar Pálsson. Paratuberculosis in Icelandic sheep and its control by vaccination.
Bull.Off.int.Epiz. 1962, 58, 65–79.
Páll Agnar Pásson. Baráttan við bráðapestina. Búnaðarritið 1994, 107, 3–23.

laugardagur 23 febrúar 02 2019
Nýjustu fréttir
Yfirlýsing fagráðs um velferð dýra vegna máls Brúneggja...
Yfirlýsing frá Dýralæknafélagi Íslands 2.desember...
Silja Unnarsdóttir, Kristbjörg Sara Thorarensen, Helga Høeg...

Dýralæknatal, búfjársjúkdómar og saga

fæst hjá DÍ 3000 kr (dyr@dyr.is)

Atvinnuauglýsingar

Dýralæknastofa Dagfinns leitar að dýralækni í smádýrapraksís. Fullt eða hlutastarf kemur til greina.

 Upplýsingar í síma 5523622.

eða netfangi gauja@dagfinnur.is

Dýraspítalinn í Garðabæ óskar eftir að ráða afleysingardýralækni.

Um er að ræða frá áramótum og til 1. september 2018.

Stöðugildið er 100%. Reynsla skiptir ekki öllu máli en mikilvægt er að viðkomandi tali og skilji íslensku eða sé með mjög góða enskukunnáttu.

Dýraspítalinn í Garðabæ er rótgróinn spítali sem eingöng sinnir smádýrum.

Nánari upplýsingar fást með að hafa samband við undirritaða Hanna M. Arnórsdóttir dýralæknir hanna@dspg.is Jakobína Sigvaldadóttir dýralæknir bina@dspg.is Björn Árnason framkvæmdastjóri  bjorn@dspg.is