Ólafur Jónsson
Dýravernd


Í skýrslu Snorra Jónssonar dýralæknis, annars í röð íslenskra
dýralækna, til Landshöfðingja um helstu sjúkdóma í búfénaði í
Múlasýslum veturinn 1876–1877 er víða vikið að aðbúnað og fóðrun
búfénaðarins í sýslunum báðum. Öll skýrslan ber þess merki að
honum þyki í flestu áfátt í aðbúnaði og fóðrun og vitnar hann m.a.
til erlendra viðmiða um rýmisþörf. Með þessari skýrslu Snorra má
segja að sleginn hafi verið tónninn að öllu starfi íslenskra dýralækna
að dýravernd fram til okkar daga. Um daga Snorra var löggjöf
um dýravernd heldur rýr og þau fáu lagaákvæði sem tiltæk
voru reyndust harla gagnslítil þegar á reyndi.
Löggjöf um dýravernd á Íslandi kemur fyrst til svo að heitið geti
árið 1915, en þá voru samþykkt sérstök lög á Alþingi um dýravernd.
Var það fyrir atbeina Dýraverndunarfélags Íslands og
nokkurra einstaklinga, þar sem fremstur fór meðal jafningja
Tryggvi Gunnarsson, að þessi lög voru sett. Lög þessi voru síðan í
gildi í um 42 ár eða þar til ný lög um dýravernd litu dagsins ljós
árið 1957, en árið 1932 höfðu verið sett sérstök lög um geldingu
húsdýra.
Með lögunum frá árinu 1957 var komið á laggirnar sérstakri
dýraverndarnefnd, en eitt af fyrstu verkum hennar var gerð tillagna
um tvær reglugerðir, annars vegar reglugerð um aflífun
húsdýra, slátrun búfjár og alifugla og hins vegar reglugerð um
meðferð búfjár, rekstur og flutning með vögnum, skipum og flugvélum.
Þá ræddi nefndin ýmis mál er varðaði veiðar á villtum dýrum,
bæði á láði og legi, og síðan ýmis mál er vörðuðu slysahættu
á dýrum, s.s. að gera átak í að hreinsa upp ónýtar girðingar í
byggð og óbyggðum og hættu sem gripum, þá aðallega hestum,
gæti stafað af vaxandi umferð á þjóðvegum landsins. Þá kom
forðagæslan einnig til skoðunar hjá nefndinni og erindi eins sláturleyfishafa
um að aflífa sláturfé með rafmagni og efasemdir
nefndarmanna um að halda mjólkurkýr á rimlagólfi.
Fyrsta einstaka málið sem barst nefndinni til umfjöllunar á 6.fundi nefndarinnar                             í nóvember 1960 og varðaði illa meðferð á skepnum, var kærumál héraðsdýralæknisins            á Austurlandi vegna halastýfingar bónda á 20 kúm. Þetta mál endaði síðan fyrir dómi
með sakfellingu. Af fundargerðarbókum nefndarinnar er ekki
hægt að sjá að slík einstök dýraverndarmál hafi komið inn á borð
nefndarinnar í mörg ár eftir það. Hverju sætir skal ósvarað hér, en
leiða má að því líkum að fjölgun dýralækna á þessum árum og eins
áður nefndar reglugerðir, hafi haft veruleg áhrif til batnaðar í
þessum efnum.
Miklar breytingar urðu í búskaparháttum á Íslandi á sjöunda og
áttunda áratug liðinnar aldar og á sama tíma var komin af stað
nokkur umræða í fjölmiðlum um dýraverndarmál. Störf nefndarinnar
á næstu fundum tók því töluvert mið af þessu, m.a. var
nokkuð rætt um aðbúnað búfénaðar og meðferð tilraunadýra.
Nefndin fjallaði einnig töluvert um sædýrasafnið í Hafnarfirði á
þessum árum og eins nauðsyn þess að fræða búfjáreigendur og almenning
um dýraverndarmál.
Með bréfi dagsettu 26. febrúar 1974 var dýraverndarnefnd síðan
falið af menntamálaráðuneytinu að endurskoða lögin um dýravernd.
Menntamálaráðuneytinu hafði borist skrifleg beiðni frá
Dýravendarsambandinu um að endurskoðun færi fram. Nágrannaþjóðir
okkar voru á þessum tíma að endurskoða lög um
dýravernd, m.a Norðmenn, sem samþykktu síðan ný lög síðar á
því sama ári. Þessi mál hreyfðust lítið næstu árin en voru oft til
umræðu á fundum nefndarinnar. Í nefndinni virðast hafa verið
uppi tvö sjónarmið, annars vegar meirihlutans sem taldi að ný lög
ættu að taka töluvert mið af nokkuð öðruvísi aðstæðum hér á landi
í öllum búskaparháttum miðað við nágrannalönd okkar og síðan
hins vegar minnihlutans, sem taldi að ekki væri þörf á að taka tillit
til slíkra hluta og byggja ætti að mestu á gildandi lögum á hinum
Norðurlöndunum.
Á næstu árum komu fram nokkur frumvarpsdrög sem ekki
náðu inn á Alþingi. Að hluta til gekk erfiðlega að brúa fyrrnefnd
sjónarmið, en eins má ætla að einnig hafi tafið framgang málsins
að á þessum árum voru að vakna hugmyndir manna um sérstakt
umhverfisráðuneyti þar sem gert var ráð fyrir að ný lög yrðu hýst.
Það var síðan á vordögum 1994 sem Alþingi samþykkir ný lög
um dýravernd sem m.a. byggðu á ákvæðum Evrópusamnings um
vernd dýra í landbúnaði og öðluðust þau gildi að því er Ísland varðar 20. mars 1990 og lauk þar með vinnu sem hafði staðið full
tuttugu ár.
Þær breytingar helstar sem urðu á frumvarpinu í meðförum Alþingis
sneru að því að festa betur í sessi tilvist tilraunadýranefndar
og einnig að fella niður ákvæði um skipan dýraverndarnefnda
í hverju umdæmi héraðsdómsstóla, líkt og gert er hjá nágrannaþjóðum
okkar. Rökin fyrir seinni breytingunni eru tvíþætt. Í fyrsta
lagi taldi umhverfisnefnd Alþingis óeðlilegt að dýravendarráð sem
ætlað var að taka við af dýraverndarnefnd samkvæmt eldri lögunum
hefði engu eftirlitshlutverki að gegna og taldi að með þessari
breytingu gæfist ráðinu heimild til að hafa frumkvæði að málatilbúningi.
Í annan stað taldi umhverfisnefnd ástæðu til að leggja
sérstaka áherslu á að héraðsdýralæknar yrðu tengiliðir dýraverndarráðs
um allt land og af þeim sökum ekki skynsamlegt né
þörf á að koma á því nefndakerfi sem frumvarpið gerði ráð fyrir.
Með þessu er ljóst að Alþingi sýndi þarna með skýrum hætti að
það mat mikils störf héraðsdýralækna að dýraverndarmálum og
ætlaði þeim stórt hlutverk í þeim efnum áfram.
Með nýjum lögum var yfirstjórn dýraverndarmála flutt frá
menntamálaráðuneytinu yfir til umhverfisráðuneytisins og eins og
fyrr segir tók dýraverndarráð við hlutverki dýraverndarnefndar.
Lögin frá árinu 1994 eru rammalög sem gera ráð fyrir setningu ítarlegra
reglugerða og frá gildistöku laganna hafa fjölmargar
reglugerðir litið dagsins ljós. Má þar m.a. nefna reglugerðir um
notkun lyfja og meðferð á sýningar- og keppnishrossum, um dýrahald
í atvinnuskyni, um bann við aðgerðum á hundum og köttum
sem framkvæmdar eru án læknisfræðilegra ástæðna og endurskoðuð
reglugerð um dýratilraunir. Auk þess hefur dýraverndarráð
verið umsagnaraðili, sbr. 5. gr. laga um dýravernd, um aðbúnaðarreglugerðir
fyrir flest húsdýr sem settar eru samkvæmt heimild
í lögum nr. 46/1991 um búfjárhald, lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma
og varnir gegn þeim og lögum nr. 66/1998 um dýralækna
og heilbrigðisþjónustu við dýr.
Með lögum um Umhverfisstofnun nr. 90 frá árinu 2002 var Umhverfisstofnun
falið að annast starfsemi dýraverndarráðs og eftirlit
með framkvæmd laga um dýravernd.
Þar með lauk eftirlitshlutverki dýraverndarráðs og er það ráðuneytinu
einungis til ráðgjafar hér eftir.
Mikil umræða fór fram á Alþingi veturinn 1956–57 um frumvarpsdrögin sem þá lágu fyrir um það undir hvaða ráðuneyti lögin Öflugt félagskerfi bænda og stuðningur stjórnvalda við búgreinarnar
um langan tíma er hér einnig sterkur áhrifavaldur.
Allt hefur þetta hjálpast að til að tryggja bærilegan aðbúnað
húsdýra hérlendis. Það verður þó á engan hallað þó því sé hér
haldið fram að störf héraðsdýralækna í áratugi, þar sem samtímis
var unnið að læknishjálp, sjúkdómavörnum eða eftirlitsstarfi
heima á búunum sem í afurðarstöðvum landbúnaðarins, hafi
samtímis gefið leiðbeiningar sem skilað hafi dýravernd mestu í
landinu til þessa.
ættu að heyra. Í framsögu með frumvarpinu sagði þáverandi
menntamálaráðherra Gylfi Þ. Gíslason að menn teldu rétt að yfirstjórn
friðunarlöggjafarinnar í heild, s.s. fuglafriðunarmálefni og
náttúruvernd, heyri undir ráðuneyti menntamála og þar með
einnig lög um dýravernd. Þessari umræðu er síður en svo lokið.
Eins var þá á Alþingi einnig rætt um nauðsyn þess að skipa sérstaka
dýraverndarnefnd eins og frumvarpsdrögin gerðu ráð fyrir.
Það vekur athygli að bæði Búnaðarfélag Íslands og Dýralæknafélagið
töldu ekki á þeim tíma ástæðu til að hafa sérstaka dýraverndarnefnd
þar sem félögin töldu að öflugt starf Dýraverndunarfélags
Íslands gerði nefndina óþarfa.
Þess hefur ekki verið talin þörf á að dýralæknar legðu hönd á
helga bók í viðurvist mætra votta til að sverja eið við þá skyldu að
vera gæslumenn þess að farið sé vel með dýr. Þessi skylda er svo
samofin menntun dýralækna og auk þess mótuð af starfi genginna
kollega að hér þarf engrar sérstakrar staðfestingar við. Í lögum
þeim sem sett hafa verið um störf dýralækna gegnum tíðina hefur
heldur ekki verið kveðið sérstaklega á um skyldur dýralækna hvað
varðar dýravernd, en þó tekið fram í erindisbréfi héraðsdýralækna
frá árinu 1971, en þar segir í 12. gr. „Héraðsdýralæknar
skulu hafa vakandi auga með því í starfi sínu, að dýr sæti ekki
ómannúðlegri meðferð. Þeir skulu hvetja menn til að sýna dýrum
nærgætni í hvívetna svo þau þjáist ekki að óþörfu. Sjálfir skulu
þeir vera til fyrirmyndar í starfi sínu og umgengni við dýr.“
Íslenskir dýralæknar hafa síðan áréttað þetta sérstaklega í siðareglum
sem þeir hafa sett sér, en fyrstu siðareglur félagsins voru
samþykktar á aðalfundi þess árið 1956 og hafa síðan verið endurskoðaðar
í tvígang. Núgildandi siðareglur eru frá 1995.
Frumherjar í íslenskri dýralæknastétt voru ódeigir við, jafnt í
ræðu sem riti, að hvetja menn til að bæta aðbúnað búfénaðarins.
Hægt og bítandi færðust þessi mál til betri vegar, samtímis sem
efnahagur þjóðarinnar batnaði til muna. Stjórnvöld styrktu heilbrigðisþjónustu
við búfénað með uppbyggingu héraðsdýralæknisembætta
um allt land og lög um forðagæslu með sveitarfélögin
sem bakhjarl hafa tryggt eftirlit þannig að horfellir búfénaðar
heyrir fortíðinni til. Áður hefur verið vikið að frumkvæði Dýraverndarfélags
Íslands og innan vébanda þess hafa verið einstaklingar
sem hafa lagt mikið af mörkum til dýraverndar í landinu.

laugardagur 23 febrúar 02 2019
Nýjustu fréttir
Yfirlýsing fagráðs um velferð dýra vegna máls Brúneggja...
Yfirlýsing frá Dýralæknafélagi Íslands 2.desember...
Silja Unnarsdóttir, Kristbjörg Sara Thorarensen, Helga Høeg...

Dýralæknatal, búfjársjúkdómar og saga

fæst hjá DÍ 3000 kr (dyr@dyr.is)

Atvinnuauglýsingar

Dýralæknastofa Dagfinns leitar að dýralækni í smádýrapraksís. Fullt eða hlutastarf kemur til greina.

 Upplýsingar í síma 5523622.

eða netfangi gauja@dagfinnur.is

Dýraspítalinn í Garðabæ óskar eftir að ráða afleysingardýralækni.

Um er að ræða frá áramótum og til 1. september 2018.

Stöðugildið er 100%. Reynsla skiptir ekki öllu máli en mikilvægt er að viðkomandi tali og skilji íslensku eða sé með mjög góða enskukunnáttu.

Dýraspítalinn í Garðabæ er rótgróinn spítali sem eingöng sinnir smádýrum.

Nánari upplýsingar fást með að hafa samband við undirritaða Hanna M. Arnórsdóttir dýralæknir hanna@dspg.is Jakobína Sigvaldadóttir dýralæknir bina@dspg.is Björn Árnason framkvæmdastjóri  bjorn@dspg.is