Gísli Jónsson

Fisksjúkdómar og eftirlit dýralækna

– sögulegt yfirlit –

Greinarstúfur þessi er á engan hátt tæmandi en ætti engu að
síður að varpa ljósi á sögulega þróun fiskeldis, sjúkdóma og aðkomu
dýralækna að eftirliti með fisksjúkdómum hér á landi.

Þróun fiskeldis
Það sem fyrst og fremst hefur einkennt sögu fiskeldis hér á landi
eru kröftugar sveiflur þar sem skipst hefur á mikill uppgangur
með ríkjandi bjartsýni og hrun og svartsýni. Algengt er að rekja
upphaf fiskeldis allt aftur til ársins 1884 þegar fyrstu tilraunir við
klak laxahrogna hófust. Kreistingar riðlaxa og frjóvgun hrogna fór
fram í þremur klakhúsum, á Þingvöllum, Reynivöllum í Kjós og
Hjarðarholti í Dölum. Eftir 1920 dafnaði þessi starfsemi og náði
töluverðri útbreiðslu um landið með allt að 40 starfandi klakhúsum.
Tilgangurinn var framleiðsla seiða til sleppinga í laxveiðiár.
Árið 1951 urðu viss þáttaskil í íslensku fiskeldi, en þá var reist
eldisstöð fyrir regnbogasilung að Laxalóni. Sama ár voru flutt til
landsins sótthreinsuð hrogn frá Danmörku og enn í dag er allur
innlendur regnbogi af þessum uppruna. Þá hóf Rafmagnsveita
Reykjavíkur eldi laxaseiða í eldisstöð sem reist var við Elliðaárnar
1953, sem seinna átti eftir að koma við sögu þegar saga smitsjúkdóma
er rakin. Með tilkomu Laxeldisstöðvar ríkisins í Kollafirði
1961 má segja að traustur grunnur hafi verið lagður að framtíð
fiskeldis hér á landi. Næstu ár fylgdi ákveðinn uppgangur og bjartsýni
í seiðaeldi. Stöðvar á borð við Öxnalæk í Ölfusi og Laxamýri í
S-Þing. litu dagsins ljós og á áttunda áratugnum hófst útflutningur
lifandi seiða til Noregs og nokkrum árum síðar einnig til
Írlands.
Sumarið 1972 hófust fyrstu tilraunir með laxeldi í sjókvíum við
Hvammsey í Hvalfirði og stuttu síðar í Höfnum og í Fáskrúðsfirði.
Kvíaeldisbylgjan hin fyrsta fór illa af stað og endaði með því að megnið af fiskinum slapp á öllum þessum stöðum. Í lok níunda
áratugarins hófst svo kvíaeldisbylgja hin önnur, í kjölfar offramleiðslu
laxaseiða og endaloka á útflutningi seiða. Bjartsýni ríkti og
kvíum komið fyrir á flestum flóum og fjörðum en óblítt veðurfar,
sjúkdómar og verðhrun á mörkuðum réði mestu um endalok
þessa tímabils. Kvíaeldisbylgjan hin þriðja átti svo upptök sín um
síðustu aldamót með aðkomu stærstu sjávarútvegsfyrirtækja
landsins. Vel var vandað til verka, með höfuðstöðvar sjókvía og
vinnslu á Austfjörðum og mannvirki öll hin glæsilegustu.
Árið 1978 hófst starfsemi hinnar fyrstu eiginlegu strandeldisstöðvar
að Húsatóftum við Grindavík og þangað má rekja fyrsta
tilfelli ákveðins smitsjúkdóms sem síðar meir átti eftir að einkenna
íslenskt fiskeldi og valda því töluverðu tjóni. Upp úr miðjum níunda
áratugnum hófu fleiri slíkar stöðvar starfsemi, og þrátt fyrir
mikinn stofnkostnað og hrakfarir, hafa þessar stöðvar borið uppi
þungan af framleiðslu sláturfisks allt fram á þessa öld.
Eldi sjávarfiska á sér allt aðra og styttri sögu. Segja má að það
hafi byrjað með lúðueldi hjá Fiskeldi Eyjafjarðar árið 1987. Lúðueldi
hefur verið farsælt og er framleiðsla lúðuseiða hér á landi í
fremstu röð og mikil eftirspurn erlendra fyrirtækja eftir seiðum og
útflutningur verið líflegur um árabil. Seinna kom til sögunnar tilraunaeldi
á þorski, barra, sandhverfu og hlýra. Hlýsjávartegundin
barri skipar ákveðinn sess í sögunni. Barrahrogn voru frá því
vorið 1994 og fram yfir aldamót flutt inn árlega frá Frakklandi,
klakin og alin við hátækniaðstæður sem byggðust á jarðvarma og
kröftugri endurnýtingu sjávar. Þróunarstarfið var um tíma leiðandi
í heiminum á sínu sviði en markaðsmál o.fl. leiddi til endaloka
fyrirtækisins eftir nær áratuga spennandi frumkvöðlastarf.
Þá hefur eldi sæeyrna verið í vexti síðan í lok níunda áratugarins.


Aðkoma dýralækna
Lengi vel var lítill gaumur gefinn að eftirliti og greiningu fisksjúkdóma.
Þegar fiskeldi jókst að umfangi og nauðsyn þótti að
taka sjúkdómaeftirlit fastari tökum í byrjun áttunda áratugarins
reyndist mikill skortur á sérfræðikunnáttu innan fagsins. Lengi vel
reyndu starfsmenn á Tilraunastöðinni á Keldum, í samvinnu við
erlenda fisksjúkdómafræðinga, að bjarga málum. Það var fyrst
með tilkomu laga um lax- og silungsveiði sumarið 1970 að formleg
afskipti dýralækna hófust með fiskeldi. Með þeirri löggjöf kom fisksjúkdómanefnd til sögunnar, undir formennsku Páls Agnars
Pálsson yfirdýralæknis, og skyldi hún hafa forgöngu um fisksjúkdómarannsóknir.
Í lögum þessum er þess getið að ráðherra sé rétt
að skipa sérfræðing í fisksjúkdómum að Keldum. Einhverra hluta
vegna varð ekki af þessari ráðningu fyrr en seint á árinu 1977, en
þá kom til starfa Sigurður Helgason fisksjúkdóma- og gerlafræðingur
sem árið 1986 tók við yfirstjórn Rannsóknadeildar fisksjúkdóma.
Frá því lögin um lax- og silungsveiði voru sett hefur embætti
yfirdýralæknis beitt sér fyrir eftirliti og baráttu gegn fisksjúkdómum
á sama hátt og hjá öðrum dýrum. Snemma árs 1971 kom
Brynjólfur Sandholt héraðsdýralæknir Reykjavíkurumdæmis að
eftirliti með fiskeldi og loks árið 1985 var með lögum komið á nýju
embætti dýralæknis fisksjúkdóma undir yfirstjórn yfirdýralæknis
og með aðsetur að Keldum. Árni M. Mathiesen gegndi stöðu dýralæknis
fisksjúkdóma frá upphafi og fram á vor 1991, með eins árs
hléi 1988–1989. Lars Hansen var aðstoðarmaður dýralæknis fisksjúkdóma
1987–1988 og síðan settur dýralæknir fisksjúkdóma í
ársleyfi Árna 1988–1989. Frá júní 1991 hefur Gísli Jónsson gegnt
þessari stöðu. Bernharð Laxdal starfaði sem sérfræðingur á Rannsóknadeild
fisksjúkdóma 1987–1991 en hefur síðan komið að eftirliti
og ráðgjöf sem sjálfstætt starfandi. Árið 1985 hófst fyrir alvöru
kerfisbundið eftirlit með fisksjúkdómum. Eftirlitið hefur
byggst á góðri samvinnu dýralæknis fisksjúkdóma, héraðsdýralækna,
sjálfstætt starfandi dýralækna í fiskeldishéruðum og Rannsóknadeildar
fisksjúkdóma á Keldum.


Sjúkdómarannsóknir og þróun fisksjúkdóma

Fyrstu skipulögðu rannsóknir á smitsjúkdómum í eldisfiski hér
á landi voru sýklarannsóknir á regnbogasilungi í Laxalóni árin
1955 og 1956, framkvæmdar á Keldum að frumkvæði landbúnaðarráðuneytisins.
Sérstök leit var gerð að bakteríu er veldur kýlaveiki
en án árangurs. Fyrstu rannsóknir á veirusjúkdómum í fiskum
voru síðan framkvæmdar að frumkvæði sama ráðuneytis á
regnbogasilungi í Laxalónsstöðinni árin 1973 og 1974. Gekkst
ráðuneytið fyrir því að fenginn var danskur fisksjúkdómafræðingur
til þess að gera sérstaka leit að veirusjúkdómum, með áherslu
á veirublæði (VHS), iðradrep (IHN) og brisdrep (IPN). Skipulögð
leit að þessum veirum hófst hins vegar árið 1985 og enn í dag hafa
sjúkdómsframkallandi veirur ekki fundist í eldisfiski hér á landi.

Árið 1968 varMynd 1. Seiði með nýrnaveiki.
fyrsti smitsjúkdómur
í eldisfiski staðfestur
hér á landi, en það
var nýrnaveiki af
völdum bakteríunnar
Renibacterium
salmoninarum. Veikin
kom upp í laxaseiðum
í eldisstöðinni                                                            Mynd 1. Seiði með nýrnaveiki.
við Elliðaár sem
rekin var af Stangveiðifélagi
Reykjavíkur
og var bakterían
greind bæði á
Rannsóknastofu Háskólans
og Tilraunastöðinni
að Keldum.
Nýrnaveiki er landlæg
í villtum laxfiskastofnum hér við land og fer ómældur tími og
fjármagn í að verjast veikinni.
Nýrnaveiki skýtur af og til upp kollinum
í fiskeldi, sem ávallt má rekja til
tengsla við villta náttúru, og er sá                                        Mynd 2. Nýrnaveikieinkenni í nýra.

Mynd 3. Kýlaveikibróðir í laxi.  
Mynd 4. Kýlaveikibróðir, skorið
inn á kýli í holdi.
einstaki sjúkdómur sem hefur komið
flestum fiskeldisstöðvum í rekstrarþrot
á liðnum áratugum.
Sá sjúkdómur sem næst hélt innreið
sína var kýlaveikibróðir sem
bakterían Aeromonas salmonicida
undirtegund achromogenes veldur.
Veikin kom fyrst upp í laxi í strandeldisstöðinni
að Húsatóftum við Grindavík árið 1979 og breiddist
þaðan hægt og bítandi út til allra strandeldisstöðva á næstu árum og féll síðasta vígið á NA-landi vorið
1997. Kýlaveikibróðir olli miklu tjóni í smituðum stöðvum og varð í raun ekki komið böndum á sjúkdóminn fyrr en með nýju bóluefni vorið
1992. Veikin hefur greinst í flestum tegundum fiska, en við eldisaðstæður
hefur hún verið sérstaklega skæð í laxi og bleikju en
einnig valdið afföllum hjá þorski, lúðu, hlýra og hrognkelsum.
Þá varð fyrst vart við vetrarsár
árið 1983, sem bakterían
Moritella viscosa veldur. Veikin
lét lítið á sér bera þar til veturinn
1992/3, en þá olli hún talsverðu
tjóni í laxeldi í strandeldisstöðvum.Bólusett hefur verið gegn vetrarsárum með ágætum
árangri síðan vorið 1993. Bakterían greinist öðru hvoru í laxi og regnbogasilungi en án
þess að valda teljandi tjóni.
Rauðmunnaveiki, af völdum bakteríunnar Yersinia ruckeri, skaut upp kollinum í laxaseiðum í
strandeldi að Strönd í Hvalfirði sumarið 1990. Brugðist var við með niðurskurði og sást veikin ekki aftur fyrr en haustið 1997.
Næstu árin mátti greina sjúkdóminn í nokkrum tilfellum, bæði í laxa- og bleikjuseiðum, en ávallt á vægu formi enda um saklausa undirtegund bakteríunnar að ræða. Vorið og sumarið 2003 keyrði
svo um þverbak, en þá kom veikin upp í laxaseiðum í fjórum eldisstöðvum og olli tiltölulega miklu tjóni. Ætla má að óvenju hlýir                                                                  
Mynd 5. Yfirlitsmynd yfir vetrarsár á
ýmsum stigum.

vetur hafi gert það að verkum að bakterían
hefur náð góðri bólfestu í náttúrunni
og gegna fuglar aðalhlutverki í
smitdreifingu. Í september 2003 var í fyrsta sinn bólusett gegn veikinni með góðum árangri.
Hitraveiki, sem bakterían Vibrio salmonicida
veldur, var fyrst greind í mars 1993. Veikin kom
upp í laxi í sjókvíaeldi með töluverðum
afföllum í kjölfarið. Strax var hafist
handa við bólusetningar með afbragðs
árangri og heyrir veikin nánast sögunni
til.
Hin eiginlega kýlaveiki, sem bakterían
Aeromonas salmonicida undirteg.
salmonicida veldur, kom upp í villtum
laxi og urriða í Elliðaánum sumarið
1995. Bakterían er verulega skæð og
Mynd 6. Hitraveikieinkenni undir kvið laxa.
drap á nokkrum mánuðum um 200 fiska sem var um 7% af heildargöngu
í ána og um 20% af veiddum laxi þetta sumarið. Gripið
var til ýmissa sértækra aðgerða næstu árin að undirlagi fisksjúkdómanefndar
og undir stjórn dýralæknis fisksjúkdóma, án þess þó
að banna veiði í ánni. Vel tókst til og hefur bakterían ekki greinst
síðan í maí 1996.
Haustið 2001 var vibríuveiki, af völdum Listonella (Vibrio)
anguillarum, í fyrsta sinn greind hér
á landi. Veikin kom upp í 2ja kg
þorski sem alinn var í strandkeri að
Stað við Grindavík. Afföll urðu um
Mynd 7. Hitraveikieinkenni
í innri líffærum, kröftugar
blæðingar í lifur
20% á einni viku en böndum var
komið á veikina með hjálp lyfja. Síðan
hefur vibríuveiki í tvígang komið
upp, í fyrra skiptið í áframeldi á
undirmálsþorski við Vestmannaeyjar sumarið 2003 og í seinna
skiptið í smáseiðum í Tilraunaeldisstöð Hafró að Stað haustið
2003. Reikna má með að bakterían verði viðloðandi þorskeldi sem
verið hefur í örum vexti á liðnum árum og notkun bóluefna

óumflýjanleg.
Sníkjudýr af ýmsum toga eru viðvarandi viðfangsefni í íslensku
fiskeldi, bæði ferskvatns- og sjávartegunda, og verða eldismenn að vera á stöðugu varðbergi. Aðrir sjúkdómar af völdum smitefna hafa ekki greinst í

Mynd 8. Vibríuveiki í þorski; ytri
einkenni.
íslensku fiskeldi svo orð sé á gerandi og í stuttu máli er þessi staða einsdæmi á heimsvísu og fyrir það höfum við hlotið síaukna eftirtekt erlendis frá og almenna viðurkenningu.
Það þykir einsdæmi að hér hafi aldrei komið upp smitsjúkdómar
af völdum veira, en veirusjúkdómar á borð við brisdrep (IPN),blóðþorra (ISA) og taugadrep (VNN) valda ómældu tjóni hjá öllum
fiskeldisþjóðum á norðurhveli jarðar.
En það eru ekki eingöngu smitsjúkdómar sem herja á íslenskt
fiskeldi, segja má að ýmis óáran komi við sögu. Auk óblíðra veðurafla
og óstöðugs markaðar hefur fiskeldisgreinin þurft að glíma
við vandamál á borð við þörunga, marglyttur, brennisteinsvetni
(H2S) og undirkælingu svo eitthvað sé nefnt.
Mikil framför hefur átt sér stað í baráttunni gegn smitsjúkdómum
í fiskum á liðnum áratug, ekki síst sýkingum af völdum baktería.
Bylting varð þegar ný kynslóð bóluefna kom á markað upp
úr 1992. Unnið hefur verið markvisst að því að draga úr notkun
sýklalyfja í fiskeldi og hefur árangur ekki látið á sér standa og eiga
umrædd bóluefni þar stóran þátt auk betri aðbúnaðar og aukins skilnings eldismanna á smitvörnum.

Framtíðin
Framtíð íslensks fiskeldis er ekki alslæm og er greinin löngu
búin að skjóta rótum þó ung sé. Eldi á Atlantshafslaxi mun án efa
halda velli án þess þó að verða sú tegund sem skilar mestri arðsemi
vegna markaðsstöðu og umfangsmikils eldis annarra þjóða
sem alið geta lax við mun hagstæðari aðstæður en bjóðast hér viðland. Ljóst þykir að eldi bleikju og lúðu hefur tekist vel við okkar aðstæður og eldi sandhverfu og sæeyrna þykir lofa góðu. Eldi nýrra tegunda á borð við þorsk, hlýra og ýsu á eftir að sanna sig
á næstu árum. Af framleiðslutölum í töflunni hér fyrir neðan má
ráða að þrátt fyrir ágjafir og erfiðleika hefur þessi unga atvinnugrein
byggst upp hægt og bítandi á liðnum áratugum. Það er með
fiskeldi eins og flest annað, sennilega er sígandi lukka farsælust til
árangurs til lengri tíma litið.

Heimildir:
1. Árni Ísaksson: Eldi laxfiska í sjó. Freyr, 11–12, 1973, 285–289.
2. Björn Rúnar Guðmundsson: Staða laxeldis og þróunarmöguleikar þess. Skýrsla
unnin á vegum Framkvæmdastofnunar ríkisins, 1980.
3. Sigurður Helgason: Munnlegar heimildir.
4. Þorsteinn Þorsteinsson: Laxalónsmál – safn til sögu Keldna 2. Úrklippur úr
blöðum, skjöl úr skjalasafni – samantekt í styttra máli, 1995.
5. Fisksjúkdómanefnd: Fundargerðir og skýrslur.

laugardagur 23 febrúar 02 2019
Nýjustu fréttir
Yfirlýsing fagráðs um velferð dýra vegna máls Brúneggja...
Yfirlýsing frá Dýralæknafélagi Íslands 2.desember...
Silja Unnarsdóttir, Kristbjörg Sara Thorarensen, Helga Høeg...

Dýralæknatal, búfjársjúkdómar og saga

fæst hjá DÍ 3000 kr (dyr@dyr.is)

Atvinnuauglýsingar

Dýralæknastofa Dagfinns leitar að dýralækni í smádýrapraksís. Fullt eða hlutastarf kemur til greina.

 Upplýsingar í síma 5523622.

eða netfangi gauja@dagfinnur.is