Skip to main content

Lög Dýralæknafélags Íslands

1. grein

Heiti félagsins

Heiti félagsins er Dýralæknafélag Íslands, skammstafað DÍ. Félagið er fag- og stéttarfélag dýralækna. Heimili og varnarþing er þar sem heimili formanns eða aðsetur skrifstofu er hverju sinni.

2. grein

Markmið félagsins

Markmið félagsins er að vinna að sameiginlegum hagsmunum dýralækna á Íslandi með því að:

a) Efla samhug, viðkynni og ímynd stéttarinnar.
b) Standa vörð um starfsréttindi félagsmanna og tryggja hagsmuni þeirra og starfsaðstöðu.
c) Efla faglega þekkingu dýralækna með t.d. námskeiðum og fræðsluerindum o.fl.
d) Gera kjarasamninga og koma fram fyrir hönd þeirra félagsmanna, sem þiggja laun samkvæmt kjarasamningum sem félagið gerir.
e) Annast umsýslu Rannsóknarsjóðs DÍ og annarra sjóða, sem kunna að verða stofnaðir í nafni félagsins, í samræmi við samþykktir þeirra.
f) Mæta á opinberum vettvangi fyrir hönd stéttarinnar.

3. grein

Félagsaðild

Félagar geta þeir orðið sem lokið hafa háskólaprófi í dýralækningum og fengið starfsleyfi á Íslandi.

Aðild að Dýralæknafélagi Íslands getur verið með eftirfarandi hætti:

a) Fag- og stéttarfélagsaðild þeirra dýralækna sem greiða fag- og stéttarfélagsgjöld til DÍ.
b) Fagfélagsaðild þeirra dýralækna sem greiða stéttarfélagsgjöld til annarra stéttarfélaga vegna starfa sinna. Þeir félagar greiða eingöngu fagfélagsgjald til DÍ og hafa full félagsréttindi og félagsskyldur auk þeirra réttinda sem stjórnin skilgreinir sem fagfélagsréttindi.
c) Aukaaðild dýralæknanema, dýralækna í framhaldsnámi, dýralækna sem dvelja erlendis í hálft ár eða lengur og dýralækna sem eru ekki í starfi í hálft ár eða lengur. Aukaaðild ber ekki iðgjald og veitir full félagsréttindi og félagsskyldur nema kosningarétt og kjörgengi. Hverfi dýralæknir aftur til starfa sem dýralæknir hér á landi fellur heimild til aukaaðildar niður.

d) Eftir 70 ára aldur geta félagsmenn sem eru enn við störf, fengið endurgreidd þau félagsgjöld sem greidd eru framvegis, óski þeir þess.

4. grein

Umsókn um inngöngu í félagið

Umsókn um inngöngu í félagið eða um breytta aðild sendist skriflega til félagsins.  Með umsókn sinni skuldbindur viðkomandi sig til að hlíta lögum og samþykktum félagsins og virða siðareglur þess.

5. grein

Reikningar félagsins

Reikningsár skal fylgja almanaksárinu og skulu öll reikningsskil miðuð við 31. desember. Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunarmenn. Reikningar félagsins skulu yfirfarnir af skoðunarmanni sem aðalfundur kýs úr röðum félagsmanna og af einum skoðunarmanni utan félagsins. Þeir skulu einnig yfirfara reikninga Rannsóknarsjóðs DÍ og Vísindasjóðs DÍ. Skoðunarmenn skulu rannsaka reikninga félagsins fyrir hvert starfsár og leggja niðurstöður sínar fyrir aðalfund.  Skoðunarmenn má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna félagsins. Stjórnin skal hafa lokið gerð ársreiknings og lagt fyrir skoðunarmenn eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund.

6. grein

Félagsgjald

Félagsgjöld (stéttarfélagsgjald, fagfélagsgjald og gjald vegna aukaaðildar) skulu ákveðin af aðalfundi (sbr. a, b, og c lið 3. gr.). Félagsmenn sem hefja töku lífeyris eru undanþegnir félagsgjaldi sbr. gr. 3 d og njóta áfram fullra félagsréttinda. Stjórn félagsins er heimilt að endurgreiða félagsgjald einstakra félaga að hluta eða öllu leyti séu til þess sérstakar ástæður, t.d. veikindi eða önnur áföll.

7. grein

Úrsögn úr félaginu

Óski félagsmaður að ganga úr félaginu, skal hann senda stjórn félagsins skriflega úrsögn og tekur hún gildi við næstu mánaðamót. Greiði félagi ekki félagsgjald í eitt ár, skal honum vísað úr félaginu og skuldin sett í innheimtu. Stjórn félagsins skal gera viðkomandi viðvart, með þriggja mánaða fyrirvara. Heimilt er að fella niður skuldina ef fyrir liggja sérstakar ástæður að mati stjórnar, t.d. veikindi eða önnur áföll.

8. grein

Kosning og skipan félagsstjórnar

Aðalfundur kýs þrjá aðalmenn í stjórn félagsins (formann, ritara og gjaldkera) og einn varamann. Skulu þeir kosnir einfaldri kosningu og skal kosningin vera leynileg. Fyrir aðalfund skal uppstillingarnefnd kanna hug félagsmanna til þátttöku í stjórn félagsins og kynna með aðalfundarboði þá sem gefa kost á sér í stjórn.

– Formaður er kosinn til tveggja ára í senn.
– Ritari og gjaldkeri eru kosnir til tveggja ára í senn.
– Varamaður er kosinn til tveggja ára í senn.

9. grein

Hlutverk formanns félagsins

Formaður hefur, ásamt félagsstjórninni, yfirumsjón með öllum framkvæmdum þess eins og ákvörðun aðalfundar og lög félagsins mæla fyrir um. Hann boðar stjórnarfundi eins oft og þurfa þykir og stjórnar þeim. Formaður skal hafa prókúru og hafa fullan aðgang að reikningum félagsins ásamt gjaldkera.

10. grein

Stjórnarfundir

Stjórnarfundir eru lögmætir ef minnst tveir stjórnarmenn eru mættir á fundinn. Formanni er skylt að boða til stjórnarfundar ef einn stjórnarmaður óskar þess.
Ritari skráir fundargerðir á stjórnarfundum sem vistaðar eru með gögnum félagsins.
Varamaður skal ávallt boðaður á stjórnarfundi og hafa þar málfrelsi og tillögurétt en atkvæðisrétt einungis í forföllum aðalmanns. Forfallist formaður, skal ritari gegna störfum hans.

11. grein

Aðalfundur félagsins

Aðalfundur skal haldinn í tengslum við faglegt dýralæknaþing á fyrsta ársfjórðungi ár hvert og telst lögmætur ef til hans er boðað skriflega eða með tölvupósti með minnst tveggja vikna fyrirvara.

Fundarboði skal fylgja full dagskrá aðalfundar ásamt:

– Skýrslu stjórnar.
– Tillögum að lagabreytingum.
– Ársreikningum.

Þessi mál skulu tekin fyrir á aðalfundi:

1. Skýrsla stjórnar
2. Reikningar félagsins, Rannsóknarsjóðs DÍ og Vísindasjóðs DÍ.
3. Félagsgjöld ákveðin (skv. 6. gr.).
4. Upphæð þóknunar, til formanns, gjaldkera, ritara og varamanns fyrir næsta starfsár, ákveðin.
5. Tillögur að lagabreytingum.
6. Skýrslur nefnda.
7. Kosið í stjórn félagsins.
8. Kosnir tveir skoðunarmenn reikninga (innri og ytri skoðunarmaður).
9. Kosnir þrír fulltrúar í uppstillingarnefnd (skv. 8. gr.).
10. Kosinn einn stjórnarmaður í Vísindasjóð DÍ.
11. Kosnir tveir fulltrúar í siðanefnd ásamt varamönnum.
12. Kosin fimm manna samninganefnd vegna samninga við ríki, sveitarfélög og dýralæknastofur/spítala.
13. Kosnir fulltrúar í ráð og aðrar nefndir sem félagið á aðild að.

14. Önnur mál er fram koma og varða félagið.

 

12. grein

Aukaaðalfundir

Ef aðalfundur er ekki lögmætur skal boða til aukaaðalfundar, með sama hætti og aðalfund og telst hann þá lögmætur.

13. grein

Aukafélagsfundir

Stjórn félagsins getur hvenær sem er á árinu boðað til aukafunda, ef hún álítur þess þörf. Einnig ber stjórn félagsins að boða til félagsfundar ef minnst tuttugu félagsmenn óska þess skriflega. Til slíkra funda skal boða bréflega eða með tölvupósti, með dagskrá og hæfilegum fyrirvara.

14. grein

Lagabreytingar

Tillögur um lagabreytingar, skulu berast stjórninni a.m.k. einum mánuði fyrir aðalfund og skal stjórnin senda þær félagsmönnum með aðalfundarboði. Lagabreytingar má aðeins gera á aðalfundi eða aukaaðalfundi og skulu þær því aðeins öðlast gildi að tveir þriðju hlutar atkvæðisbærra félaga, sem mættir eru á fundinn, greiði þeim atkvæði.