Skip to main content
Category

Fréttir og viðburðir

DÍ hefur veitt umsögn um frumvarp um lengingu fæðingarorlofs

By Fréttir og viðburðir

Dýralæknafélag Íslands hefur gefið umsögn um frumvarp um lengingu fæðingarorlofs. Félagið ítrekar í umsögn sinni það sem fram kom í bréfi félagsins til Félags- og jafnréttismálaráðherra dagsettu 7. apríl 2017.

Í bréfinu var beiðni um lagabreytingu sem geri sjálfstætt starfandi, barnshafandi dýralæknum, að framlengja fæðingarorlof af öryggisástæðum. Eins og kom fram í viðtali við sjálfstætt starfandi dýralækni í sjónvarpsfréttum fjalla reglurnar um framlengingu af öryggisástæðum um starfsmenn en ekki sjálfstætt starfandi konur. Þessu þarf að breyta, enda lítur félagið svo á að sjálfstætt starfandi konur sem starfa við slíkar aðstæður eigi sama rétt á framlengingu og konur sem eru starfsmenn fyrirtækja og stofnana.

Sjá frétt RÚV hér:

Brúneggjamálið

By Fréttir og viðburðir

Yfirlýsing frá Dýralæknafélagi Íslands 2. desember 2016

Dýralæknafélag Íslands vill koma eftirfarandi á framfæri í tilefni ummæla forstjóra Matvælastofnunar í Kastljósi um áhrif verkfalls DÍ á framgang mála varðandi Brúneggja ehf. innan stofnunarinnar:

Dýralæknar við Matvælastofnun hafa starfað af samviskusemi, heilindum og með dýravelferð að leiðarljósi. Eins og kom fram í viðtali við Floru-Josephine Hagen Liste, fyrrverandi héraðsdýralækni Vesturlands í Kastljósi 1. desember sl. sendi Matvælastofnun ekki undanþágubeiðni til eftirfylgni vegna ástandsins á eggjabúi Brúneggja að Stafholtsveggjum til undanþágunefndar Dýralæknafélagsins í verkfalli BHM vorið 2015, þrátt fyrir óskir Floru-Josephine þar um. Í þessu máli hefði undanþága án efa verið veitt á grundvelli dýravelferðar eins og undanþágan til að ljúka eftirlitsskýrslu sem var veitt 12 maí 2015.

Við Matvælastofnun starfar metnaðarfullt fólk með sérþekkingu á þörfum, velferð og heilbrigði dýra. Það er miður að þekking og mat þessara fagmanna hafi ekki fengið það vægi í starfi stofnunarinnar sem það ætti að fá.

Dýralæknafélag Íslands fagnar því að forstjóri Matvælastofnunar hafi nú lýst yfir ábyrgð í meðferð málsins og með því að nokkru rétt hlut þeirra starfsmanna sinna sem vildu höndla málið á annan hátt, með velferð dýranna og hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Meðferð þessa máls er engu að síður áfellisdómur yfir því skipulagi sem velferð og heilbrigði dýra er búið í stjórnkerfinu. Yfirdýralæknir á og þarf að vera æðsti yfirmaður velferðar og heilbrigðis dýra, málefna dýralækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna sem sinna dýrum. Tryggja þarf sjálfstæði yfirdýralæknis til ákvarðanatöku og að hann svari beint til ráðherra um þær ákvarðanir, og að hann geti þannig, þegar þörf krefur, fylgt eftir brýnum úrlausnarefnum er lúta að velferð dýra og hagsmunum neytenda.

Fagráð ályktun

By Fréttir og viðburðir

Yfirlýsing fagráðs um velferð dýra vegna máls Brúneggja

Fagráð um velferð dýra harmar að hraði og framvinda við meðferð mála Brúneggja hafi ekki ávallt miðast við að tryggja bestu velferð dýranna. Matvælastofnun var þó ljóst að alvarleg frávik voru í aðbúnaði og umhirðu fuglanna. Með tilliti til skipurits er yfirstjórn Matvælastofnunar ábyrg í þessu máli, bæði fyrir verkferlum og upplýsingaflæði til almennings. Sömuleiðis verður að benda á ábyrgð Bændasamtakanna og Búnaðarsambands í málinu, en athygli þeirra hafði ítrekað verið vakin á að búskaparhættir Brúneggja samrýmdust ekki kröfum reglugerðar nr. 504/1998 um vistvæna framleiðslu.

Mál Brúneggja leiðir í ljós hve ámælisverð sú ákvörðun Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis er að heimila áfram notkun merkis vistvænnar landbúnaðarframleiðslu og viðhalda þannig fölsku öryggi neytenda um vottaða dýravelferð þrátt fyrir að reglugerð nr. 504/1998 hafi verið felld úr gildi.

Fagráð um velferð dýra beinir því til þeirra aðila sem ábyrgð bera í málinu að gerðar verði nauðsynlegar úrbætur svo komið sé í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Mikilvægt er að marka þá stefnu að ekkert umburðarlyndi sé fyrir slæmri meðferð dýra.

Fagráðið telur að skoða verði skipulag og verkferla dýravelferðarmála og skerpa á lokafresti til að ljúka málum við alvarleg frávik. Öll málsmeðferð verður að hverfast um mat fagmanna á velferð dýranna.

Fagráðið álítur að yfirdýralæknir ætti einn að vera æðsti yfirmaður velferðar og heilbrigðis dýra og geta sem slíkur tekið sjálfstæðar ákvarðanir í dýravelferðarmálum.

Fagráð um velferð dýra lýsir sig tilbúið að styðja við endurskoðun verklags í dýravelferðarmálum, enda er það hlutverk fagráðsins sbr. 5.gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra, a. lið annarrar málsgreinar: ,,að vera Matvælastofnun til ráðuneytis um stefnumótun og einstök álitaefni er varða málefni á sviði velferðar dýra.”

Samþykkt samhljóða á fundi fagráðs, 8. desember 2016.