Skip to main content

Siðareglur Dýralæknafélags Íslands

Codex Ethicus Dýralæknafélags Íslands
1.
Dýralæknir skal hafa vakandi auga með því að farið sé vel með öll dýr, þau séu ekki hrekkt, meidd eða kröftum þeirra og þoli ofboðið. Hann skal beita sér fyrir því að í aðbúnaði húsdýra sé tekið tillit til þekkingar um náttúrulegt atferli dýranna er tryggi þeim góða vist. Dýralæknir skal gæta þess að ekki sé gengið svo nærri getu dýra að heilsa þeirra skerðist. Sjálfur skal dýralæknir vera til fyrirmyndar í umgengni við dýr.

2.
Dýralæknir skal skal einungis framkvæma þær læknisaðgerðir sem réttmætar teljast og eru í samræmi við viðurkenndar starfsaðferðir dýralækna.

3.
Dýralæknir skal ekki gefa ráð og / eða fyrirmæli um meðhöndlun nema skoða dýrið fyrst eða á annan hátt hafa aflað sér nægjanlegrar vitneskju um málið.

4.
Við tilraunir skal dýralæknir ávallt gæta velferðar dýra og forðast að valda þeim sársauka eða ótta.

5.
Dýralæknir skal gæta þagmælsku gagnvart skjólstæðingum sínum nema velferð dýra eða almannaheill sé í húfi.

6.
Dýralæknir skal sýna árvekni í starfi og auka stöðugt faglega kunnáttu sína og færni og halda henni við.

7.
Dýralæknir skal gæta hófs í notkun og ávísun lyfja og hafa ætíð í huga hugsanlega hættu af lyfja- og efnamengun er skaðað gæti neytendur og lífríkið í heild.

8.
Dýralæknir skal eftir fremsta megni hindra að dýr sé notað í sýningum eða keppni, hafi hann grunsemdir eða vissu um að dýrið sé vanheilt eða undir áhrifum örvandi eða deyfandi lyfja.

9.
Dýralæknir skal í vottorði eða úrskurði aðeins gefa upp það sem hann finnur eftir skoðun og/eða rannsókn.

10.
Dýralæknir skal leitast við að mynda sér ígrundaða skoðun á stöðu og rétti allra dýra á hverjum tíma í lífríkinu. Hann skal eftir fremsta megni leiðbeina almenningi, félagasamtökum og löggjafanum um meðferð og aðbúnað dýra þannig að velferð þeirra sé tryggð.

11.
Dýralæknir skal, ef beðið er um, veita upplýsingar um áætlaðan kostnað vegna læknisaðgerða. Við kostnaðarsamar aðgerðir skal dýralæknir ávallt að fyrra bragði veita dýraeiganda upplýsingar um áætlaðan kostnað og aðra möguleika á meðferð.

12.
Ef dýralæknir er sóttur til sjúklings, sem er undir hendi annars dýralæknis, þá skal hann ef nokkur tök eru á, leita upplýsinga um sjúklinginn hjá viðkomandi dýralækni sem skal veita allar nauðsynlegar upplýsingar í því sambandi. Dýralæknir skal koma til móts við réttmætar kröfur dýraeiganda um að leita til annars dýralæknis æski dýraeigandi þess.

13.
Dýralæknir skal auðsýna stéttarbróður drengskap og háttvísi jafnt í viðtali sem umtali, ráðum sem gerðum. Honum ber að forðast að kasta rýrð á þekkingu eða störf stéttarbróður.

14.
Enginn dýralæknir má viðhafa gyllingar á sér eða sinni lækningastarfsemi. Dýralæknir skal á opinberum vettvangi eða við auglýsingar ávallt gæta þess að veita einungis faglegar og raunhæfar upplýsingar um dýralækningar í samræmi við þekkingu og reynslu. Verði dýralæknir þess áskynja að í undirbúningi séu áskoranir varðandi veitingu embætta, skal hann beita áhrifum sínum gegn því.

15.
Álitamálum sem varða siðareglur þessar skal vísa til siðanefndar Dýralæknafélags Íslands. Dýralæknir sem telur að annar dýralæknir hafi gerst brotlegur við siðareglur félagsins skal tilkynna það siðanefnd skriflega.

16.
16.1 Í siðanefnd sitja tveir félagsmenn kosnir af aðalfundi og annar sem formaður nefndarinnar, auk eins fulltrúa skipuðum af stjórn D.Í. eftir tillögu Rannsóknarstofu í Siðfræði og skulu nefndarmenn sitja í nefndinni þrjú ár í senn. Varamenn skulu valdir með sama hætti og vera varamenn ákveðins nefndarmanns. Ef nefndarmaður og varamaður hans einnig, teljast vanhæfir skal stjórn D.Í. skipa annan félagsmann í þeirra stað til að fjalla um málið. Nefndarmenn skulu gæta þagmælsku um öll mál.
16.2 Siðanefnd skal vera umsagnaraðili um álitamál og skera úr um deilur og kærur sem henni berast. Siðanefnd getur einnig af sjálfsdáðum eða samkvæmt beiðni gefið álit sitt á málum er varða dýralækningar almennt og tengjast þessum siðareglum, enda sé málið ekki tengt neinum einum dýralækni
16.3 Nefndin kemur svo oft saman sem þurfa þykir þó aldrei sjaldnar en einu sinni á ári milli aðalfunda félagsins og skal formaður gera grein fyrir störfum hennar á aðalfundi. Öll gögn nefndarinnar skal varðveita í trúnaðarbók í vörslu formanns. Úrskurður siðanefndar skal liggja fyrir eigi síðar en þremur mánuðum frá því að mál berst henni nema til komi sérstakar ástæður sem hamli því. Kærur teljast fyrndar ef þær ná til atviks eldra en eins árs.
16.4 Aðilum máls skal gefinn kostur á að gera grein fyrir máli sínu fyrir siðanefnd, eins hefur siðanefnd rétt til að stefna málsaðilum fyrir sig, en ferðir í því sambandi greiða þeir sjálfir, svo og allan málskostnað sinn. Málum sem berast nefndinni og eru talin brjóta augljóslega í bága við hegningarlög skal vísa til ákæruvalds. Kostnað vegna siðanefndar skal greiða úr félagssjóði, en laun til félagsmanna er sitja í siðanefnd á hverjum tíma koma ekki til.
16.5 telji siðanefnd að um brot á þessum siðareglum sé að ræða skal hún kveða skýrt á um hvort brotið sé ámælisvert, alvarlegt eða mjög alvarlegt. Alvarlegt brot á siðareglum þessum getur varðað brottvísun úr Dýralæknafélagi Íslands. Úrskurði siðanefndar skal birta í fréttabréfi Dýralæknafélagsins.

Siðareglur þessar voru samþykktar á aðalfundi Dýralæknafélags Íslands 1995.