Fjárkláði á Íslandi

Brynjólfur Sandholt

Á fyrri hluta 18. aldar var ullariðnaður hér á landi með líku
sniði og verið hafði frá landnámsöld. Það var því eftir miklu að slægjast ef hægt væri að koma á umbótum á því sviði með sömu tækni og þekktist í nágrannalöndum okkar.
Skúli fógeti Magnússon fór með ull af íslensku fé til Kaupmannahafnar og lét vinna hana í verksmiðjum þar úti og sýndi fram á að ull af íslensku fé gat vel hentað til klæðagerðar. Það var upphafið að byggingu Innréttinganna í Reykjavík um miðja 18. öld með styrk frá konungi og þar hófst vinna við að gera vaðmál úr íslenskri ull en skinnaverkun nokkru síðar.
Fljótlega kom í ljós að afurðir íslenska fjárins voru miklu lakari en algengra fjárkynja á Bretlandseyjum, einkum hvað ullargæði snerti. Til að bæta úr þessu flutti sænsk-þýskur barón, Friðrik Hastfer að nafni, 10 enska hrúta hingað til lands sumarið 1756 og
keypti síðan 100 íslenskar ær og stofnsetti

Kláðamaur (Psoroptes ovis).
A: Lirfa. B: Nymfa. C: Kvendýr. D: Karldýr.
sauðfjárbú að Elliðavatni við Reykjavík og fékk til þess styrk frá konungi. Nokkuð framhald varð á þessum innflutningi næstu 4–5 árin.
Brátt spurðist út að gæði ullar af blendingsfénu væri snöggtum betri en af alíslensku fé svo munað gæti tvöföldu eða jafnvel þreföldu verði. Fyrir áeggjan fyrirmanna og von um skjótfenginn gróða fór eftirsókn eftir kynbótahrútum vaxandi og dreifðist fé frá Elliðavatni víða um Suður- og Vesturland á næstu árum.
Veturinn 1761 fór að bera á veikindum í sauðfé á Elliðavatni en árið áður hafði Hastfer með sér nokkra spánska hrúta og talið var að þessir hrútar hefðu sýkst á leiðinni. Veturinn eftir komu í ljós samskonar einkenni í sauðfé víða á Suðvesturlandi, allt frá Árnessýslu og vestur í Dali. Sjúkdómurinn lýsti sér með því að féð var slegið hrúðri og kaunum og fylgdi þessu ákafur kláði. Talið var að orsökin væri skorkvikindi sem græfi sig niður í holdið og byggi þar
um sig og ylli miklum kláða og hrúðurmyndunum ef ekkert væri að gert. Sambærilegan sjúkdóm töldu menn vera þekktan erlendis og var sjúkdómurinn nefndur fjárkláði.
Ær með fjárkláða, ull nudduð af á hrygg og hupp.
Er sjúkdómurinn hafði legið hér í landi í rúman áratug og verið viðvarandi á svæðinu frá Jökulsá á Sólheimasandi vestur og norður um land allt til Eyjafjarðar, að undanteknum Vestfjörðum, og
allar tilraunir bænda til að útrýma kláðanum höfðu mistekist ákváðu yfirvöld með konunglegri tilskipun að þar sem kláðinn var eða grunur um að hann hafi stungið sér niður skyldi öllu sauðfé lógað. Jafnframt
segir í tilskipuninni að öll fjárhús á þessum svæðum skuli rifin, veggjum sundrað og timbur úr þeim sviðið í eldi áður en reist yrðu ný, rýmri og loftbetri fjárhús.
Fjárskiptunum lauk 1779 og höfðu þá staðið í níu ár. Nokkur mistök hafa að öllum líkum orðið á nokkrum stöðum þar sem víða gætti mótþróa og ósjaldan teflt á tæpasta vað í trássi við fyrirmæli
yfirvalda. Yfirleitt tókst að fá nýtt fé jafnóðum þó um langan veg væri að fara og margir orðið að sætta sig við að byrja einungis með
fáar kindur. Í upphafi fóru fjárskiptin fram án nokkurs styrks en síðar á fjárskiptatímanum fékkst styrkur í formi eftirgjafar á sköttum.
Þegar fjárkláðinn barst til landsins var sauðfjáreign landsmanna talin um 360 þúsund en alls er talið að um 280 þúsund fjár hafi drepist eða verið skorið niður áður en tekist hafði að vinna
bug á sjúkdómnum. Þegar haft er í huga að stór og fjármörg héruð sluppu alveg við kláðann, hefur tjón bænda á þeim svæðum þar sem veikin lagðist á með hvað mestum þunga verið gífurlegt.
Þetta var fyrsti búfjársjúkdómur hér á landi sem varð tilefni til aðgerða af hálfu opinberra aðila og var nefndur fjárkláðinn fyrri.
Þrátt fyrir þessi áföll og kostnað var áfram flutt inn sauðfé til kynbóta. Árið 1855 fékk bóndinn í Svignaskarði hrút og tvær ær af spönsku kyni en þær ulli engri sýkingu. Aftur á móti komu 4 ensk lömb sama haust sem fara áttu að Hraungerði í Flóa. Í flutningnum austur töfðust þau í Miðdal og síðar kom í ljós að heimaféð hafði smitast af kláða. Þaðan breiddist kláðinn fljótt út en ensku lömbin voru aflífuð í Hraungerði. Þessi kláðafaraldur var kallaður fjárkláðinn síðari eða sunnlenski fjárkláðinn eins og hann hefur stundum verið nefndur.
Fyrstu viðbrögð til að hefta útbreiðslu fjárkláðans var skoðun á fé í réttum og síðan að beita niðurskurði, en það var í samræmi við tilskipunina frá 1772. Stjórnin í Danmörku tók fljótlega upp þá stefnu að beita lækningum en Alþingi aðhylltist aftur á móti lengst af niðurskurð. Út af þessu spunnust hinar hatrömmustu deilur sem stóðu í langan tíma og greindi menn á um hvort heldur ætti að beita niðurskurði eða lækningum til útrýmingar fjárkláðanum.
Strax árið 1857 var sett reglugerð um meðferð fjárkláðans þar sem fyrirmæli voru gefin um lækningar, sótthreinsun fjárhúsa og bann við að reka fé á fjall frá bæjum þar sem sýkinnar hafði orðið vart. Því aðeins átti að lóga fé að kindur væru svo yfirkomnar að lækningar gætu ekki borið árangur. Eins og fyrr segir var mikil sundrung og fálm um hvernig baráttunni skyldi hagað þangað til stjórnin tók af skarið 1859 og tilnefndi tvo menn til að veita þessu starfi forstöðu og gaf þeim nokkurskonar alræðisvald. Þetta voru þeir professor Tscherning, yfirdýralæknir Danmerkur, og Jón Sigurðsson forseti. Fóru þeir um landið ásamt tveimur dýralæknum,
var annar þeirra Teitur Finnbogason, og lögðu á ráðin og ákváðu hvernig starfinu skyldi hagað. Sem dæmi um hve hitinn og heiftin var mikil í þingmönnum út af þessu máli var Jón Sigurðsson ekki kosinn forseti Alþingis 1859.

Fjárkláði í kind. Ull nudduð af baki og af verða sár.

Síðar komu lög sem fjölluðu um kostnaðarskiptingu fjáreigenda  og landssjóðs. Má þar benda á að samkvæmt fjárkláðalöggjöf frá 1901 og 1903 var fjáreigendum skylt að leggja til viss baðáhöld, aðstoð við böðunina og að standa straum af vissum kostnaði vegna flutnings baðáhalda og baðlyfja en annar kostnaður skyldi greiddur af hinu opinbera og hefur þetta fyrirkomulag gilt að mestu fram á þennan dag.
Nokkuð var sótt til erlendra dýralækna um ráð til að ráða niðurlögum veikinnar og komu tveir íslenskir dýralæknar þar að, þó í minna mæli en ætla mætti. Það voru dýralæknarnir Teitur Finn-
bogason (1803–83) og Snorri Jónsson (1844–79). Um 1880 var talið að tekist hefði að ráða niðurlögum fjárkláðans en hann kom fram á ný, en ekki með sama ógnarmætti og áður. Um þetta leyti má segja að niðurskurður hafi beðið ósigur, m.a. vegna óhemju kostnaðar sem honum fylgdi en lækningar með lyfjum alfarið teknar upp sem viðurkennd aðferð í baráttuni við fjárkláðann.
Árin 1902–5 ferðaðist norskur bóndi, Ole Myklestad, á vegum stjórnarinnar um landið og leiðbeindi um tilbúning baðlyfs (tóbaksblöndu) og böðun sauðfjár. Þótti hann nokkuð harður í
horn að taka og náði drjúgum árangri en ekki tókst þó að útrýma kláðanum í það skiptið.
Ýmis lyf hafa verið notuð í gegnum tíðina til að drepa niður kláðann. Fyrst voru notuð smyrsl sem borin voru á hrúðrin til að mýkja þau upp fyrir böðunina. Þessi smyrsl innihéldu t.d. kreolín
1 hl., spritt 1 hl. og grænsápa 8 hl. Síðan var féð baðað upp úr kresólupplausn sem þótti árangursríkust. Veigamikill þáttur í útrýmingarbaráttunni var sótthreinsun fjárhúsanna en það gat reynst torvelt í framkvæmd þar sem þau voru mörg byggð úr torfi og grjóti. Einnig varð að hafa í huga að smitið gat haldist í slíkum húsum allt upp í 5 vikur.
Aðstæður til böðunar voru víða mjög erfiðar og oft notaðir balar eða grunnar þrær í jötum. Algengast var að kindur væru bundnar svokölluðu sauðbandi, þ.e.a.s. allir fætur voru bundnir
saman og kindinni síðan lyft og sett niður í baðlöginn og snúið þar þangað til hún var gegnvot. Þetta var erfitt og seinlegt kalsaverk þar sem böðunin var oftast framkvæmd á tímabilinu
október til desember. Síðar komu til betri baðlyf eins og Gamatox sem innihélt benzenehexachlorid, en hefur reyndar nú verið bannað.
 Til að létta sér erfiðið voru víða gerðar djúpar baðþrær í jötur fjárhúsa þar sem féð gat gengið ofaní og síðan synt eftir þrónni ía.m.k. eina mínútu  og jafnframt var því difið á bólakaf svo hausinn og féð allt bjórvöknaði sem var nauðsynlegt til að árangur næðist.
Allt þetta hefur stuðlað að því að kláðatilfellum hefur fækkað svo að kláðinn hefur aðeins gert vart við sig í 2–3 varnarhólfum á síðustu áratugum.
Þegar skipulögð fjárskipti hófust vegna mæðiveikinnar var gert að skyldu að fjárskiptafé skyldi baðað áður en því var sleppt í nýtt hólf. Árangurinn varð sá að fjárkláða hefur ekki ekki orðið vart í mörgum fjárskiptahólfum nú á seinni árum.
Það var lagaskylda frá 1958 að baða allt sauðfé í landinu annað hvert ár á tímabilinu 1. nóvember til 15. mars og tvíbaða ef upp kæmi kláði. Þegar leið á síðari hluta áttunda áratugarins og kláði hafði ekki gert vart við sig um stóran hluta landsins, óskuðu bænd-
ur eftir því að þessar reglur yrðu endurskoðaðar. Í sambandi við ný lög um varnir gegn dýrasjúkdómum var ákveðið að fella niður skylduböðun en baða þar sem kláði yrði staðfestur.
Á undanförnum árum hafa nýjar tegundir lyfja gegn kláða komið á markaðinn og leyst gömlu baðlyfin af hólmi. Þessum lyfjum er sprautað undir húð og dreifast síðan um líkamann þannig
að þegar maurinn sýgur vessa úr kindinni þá fær hann lyfið í sig og drepst. Einnig virka þau vel á innyflaorma og hafa því tvíþætta verkun. Þessi lyf hafa verið í stöðugri þróun á síðustu 15–20 árum og nú eru komin lyf á markaðinn sem hafa enn lengri verkunartíma og meiri möguleiki til að verjast endursmiti frá umhverfinu.
Með þessi nýju lyf í huga var ákveðið haustið 1996 að gera tilraun og sprauta allt ásetningsfé í Reykhólahólfi og sjá hvort kláðamaurnum verði útrýmt með þessari aðferð en kláði hefur verið
landlægur á þessum slóðum í áratugi. Kláði kom upp á einum bæ á svæðinu fjórum árum síðar, en sprautað var á ný og nú er að sjá hver árangurinn verður. Einnig hefur allt sauðfé verið sprautað í Miðfjarðarhólfi með nýju og árangursríkara lyfi og niðurstöðu beðið hvort sami eða betri árangur náist.
Það standa því vonir til að fjárkláðanum verði innan tíðar útrýmt úr landinu eftir 150 ára baráttu sem hefur haft í för með sér ómælda vinnu fyrir bændur að viðbættum drjúgum lyfjakostnaði
ásamt miklu álagi og óþægindum fyrir dýrin.
Að lokum er rétt að benda á að fleiri óværur hrjá íslenskt sauðfé heldur en kláðamaurinn og má þar nefna eftirtalin sníkjudýr. Færilúsin var algeng í sauðfé hér áður fyrr en við skylduböðun
við fjárskipti og lögskipaðar kláðabaðanir eftir það dró mjög úr útbreiðslu hennar. Algengt var að við rúning hlypi hún yfir á fólk sem vann við rúninginn og þótti það frekar óhugnanlegt þar sem hún er dökkbrún á lit og drjúgtstór eða um hálfur sentimeter á lengd.
Fellilúsin (hafíslús) sýgur ekki blóð eins og færilúsin heldur lifir á húðfrumum.
Ef mikið er af henni þá veldur hún miklum kláða og má þá sjá kindur nudda sig mikið.
Fótakláði er af völdum maurs sem heldur sig milli klaufanna og allt upp hné eða hækli. Fé sem er haldið fótakláða má oft sjá tanna sig á fótum til að draga úr kláðanum.
Eins og fyrr segir er fjöldi áhrifaríkra lyfja á markaðinum í dag og það ásamt kerfisbundnum baráttuaðferðum unnum af vandvirkni ætti að geta orðið til þess að þessum óþrifum verði útrýmt hér á landi innan ekki langs tíma.

Heimildir:
Saga Íslendinga VI, Tímabilið 1700–1770, Menntamálaráð og Þjóðvinafélagið.
Sig. Ein. Hlíðar, dýralæknir: Sauðfé og Sauðfjársjúkdómar, Akureyri MCMXXXVII.
Gils Guðmundsson : Öldin sem leið, 1861–1900, Forlagið Iðunn, Reykjavík, 1956.
Páll A. Pálsson: Óþrif í sauðfé og sauðfárbaðanir. Vasahandbók bænda 1954.
Búnaðarfélag Íslands

miđvikudagur 20 febrúar 02 2019
Nýjustu fréttir
Yfirlýsing fagráðs um velferð dýra vegna máls Brúneggja...
Yfirlýsing frá Dýralæknafélagi Íslands 2.desember...
Silja Unnarsdóttir, Kristbjörg Sara Thorarensen, Helga Høeg...

Dýralæknatal, búfjársjúkdómar og saga

fæst hjá DÍ 3000 kr (dyr@dyr.is)

Atvinnuauglýsingar

Dýralæknastofa Dagfinns leitar að dýralækni í smádýrapraksís. Fullt eða hlutastarf kemur til greina.

 Upplýsingar í síma 5523622.

eða netfangi gauja@dagfinnur.is

Dýraspítalinn í Garðabæ óskar eftir að ráða afleysingardýralækni.

Um er að ræða frá áramótum og til 1. september 2018.

Stöðugildið er 100%. Reynsla skiptir ekki öllu máli en mikilvægt er að viðkomandi tali og skilji íslensku eða sé með mjög góða enskukunnáttu.

Dýraspítalinn í Garðabæ er rótgróinn spítali sem eingöng sinnir smádýrum.

Nánari upplýsingar fást með að hafa samband við undirritaða Hanna M. Arnórsdóttir dýralæknir hanna@dspg.is Jakobína Sigvaldadóttir dýralæknir bina@dspg.is Björn Árnason framkvæmdastjóri  bjorn@dspg.is