Skip to main content

Andleg vanlíðan og streita er algeng meðal dýralækna hér á landi skv. nýrri könnun sem Dýralæknafélag Íslands gerði meðal félagsmanna sinna. Stóraukið gæludýrahald á landsvísu, óvægin umræða á samfélagsmiðlum, óraunhæfar kröfur viðskiptavina, einmanaleiki, samúðarþreyta og mannekla eru meðal helstu orsakavalda. Könnunin var gerð í samstarfi við fyrirtækið Outcome dagana 7.– 14. júni og var svarhlutfall 60%.

Álag hefur aukist til muna

Helmingur svarenda í könnuninni töldu álag í starfi vera við þolmörk (810) og minnihluti taldi álagið lítið eða í meðallagi (29%). Álag í starfi virðist hafa aukist síðustu misseri en 68% sögðu álagið hafa aukist, þar af 59% mikið eða mjög mikið. Einn af hverjum fimm (21%) sögðust hafa skipt um starf vegna álags á lífsleiðinni. Allnokkrir hættu störfum alfarið.

Helstu ástæður aukins álags eru sagðar vera aukin gæludýraeign landsmanna og auknar og óraunhæfar væntingar og kröfur viðskiptavina. Framfarir í faginu hafa jafnframt aukið þjónustuframboð dýralækna til muna og krafan um aukna tæknivæðingu og endurmenntun verður sífellt háværari. Nokkur mannekla virðist vera í faginu og þá sérstaklega á landsbyggðinni en hafa ber hér í huga að nýlega var umdæmum héraðsdýralækna Matvælastofnunar fækkað úr fimm í fjögur. Valdar sögur félagsmanna af álagi í starfi má sjá í boxi á næstu síðu.

Heilsufar dýralækna: Er sama uppi á teningnum á Íslandi?

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna hefur rannsakað starfsumhverfi og heilsutengda þætti meðal dýralækna um árabil. Benda niðurstöðurnar til þess að bandarískir dýralæknar séu mun líklegri til að upplifa andlegan heilsubrest en aðrar stéttir. Einn af hverjum sex sögðust hafa íhugað sjálfsvíg einhvern tímann um ævina. Niðurstöður breskra og norskra kannana benda til hins sama en samkvæmt breskri rannsókn eru dýralæknar þrisvar til fjórum sinnum líklegri til að falla fyrir eigin hendi en meðalmanneskjan og norskir dýralæknar um tvöfalt líklegri.[1] Ekki liggur fyrir hvort staðan á Íslandi sé jafn slæm og í öðrum löndum en í könnun Dýralæknafélagsins sögðust 75% svarenda finna fyrir streitueinkennum vegna mikils álags í starfi, þar af 45% bæði fyrir líkamlegum og andlegum einkennum. Helstu ástæður eru sagðar vera álag, einmanaleiki starfsins, skortur á stuðningsneti og tengslum við samstarfsfélaga, samúðarþreyta og, síðast en ekki síst, óvægin og ósanngjörn umræða á samfélagsmiðlum um dýralækna. Eftirlitsdýralæknar hafa þá orðið fyrir því að vegið sé að sálrænu og líkamlegu öryggi þeirra í eftirlitsferðum í sveitum landsins þegar kannað er hvort settum lögum og reglum, t.d. um dýravelferð og aðra þætti, sé framfylgt.

Mikilvægt er að gerðar séu frekari rannsóknir á heilsu og starfsumhverfi dýralækna á Íslandi og mörkuð sé stefna um leiðina fram á við og aukinn stuðning við stéttina.

Sögur dýralækna á Íslandi

„Aðalástæða aukins álags er líklega aukin gæludýraeign, meiri kröfur til þjónustu. Svo er verið að taka ákvarðanir um líf og dauða dýra sem eru orðin að fjölskyldumeðlimum“

„Dýralæknar í dreifðari byggðum hafa gert þjónustusamning um verktakagreiðslur við MAST en eru að öðru leyti án réttinda, ef þeir veikjast eða þurfa að láta tímabundið af störfum. Stærri vaktsvæði er ómögulegt að manna einn. Álagið er gríðarlegt, þeir dýralæknar sem sinna öllum bakvöktum á sínu svæði vinna yfir 6.000 klst á ári á bakvöktum. Sumir þurfa að keyra 180 km hvora leið yfir fjallvegi í allavega veðrum og ófærð  til að geta sinnt vitjunum á svæðinu“

„Margir eftirlitsþolar komast upp með óvinsamlega framkomu, jafnvel sýna ofbeldi“

„Eru mikið einir á vakt án félagslegs stuðnings vinnufélaga…það stendur enginn undir kröfum um 24/7 vaktir til lengdar án mikils stuðnings frá fjölskyldu og kollegum“

„Samfélagsmiðlar spila stórt hlutverk – óvægin umræða á netinu t.d. frá gæludýraeigendum

 

[1]      cdc.gov/mmwr/preview/mmwrhtml/mm6405a6.htm, https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/20591857 og https://www.nrk.no/osloogviken/veterinaerer-ligger-hoyest-pa-selvmordsstatistikken-_-na-skal-det-forskes-pa-hvorfor-1.15277696