Skip to main content

Yfirlýsing frá Dýralæknafélagi Íslands 2. desember 2016

Dýralæknafélag Íslands vill koma eftirfarandi á framfæri í tilefni ummæla forstjóra Matvælastofnunar í Kastljósi um áhrif verkfalls DÍ á framgang mála varðandi Brúneggja ehf. innan stofnunarinnar:

Dýralæknar við Matvælastofnun hafa starfað af samviskusemi, heilindum og með dýravelferð að leiðarljósi. Eins og kom fram í viðtali við Floru-Josephine Hagen Liste, fyrrverandi héraðsdýralækni Vesturlands í Kastljósi 1. desember sl. sendi Matvælastofnun ekki undanþágubeiðni til eftirfylgni vegna ástandsins á eggjabúi Brúneggja að Stafholtsveggjum til undanþágunefndar Dýralæknafélagsins í verkfalli BHM vorið 2015, þrátt fyrir óskir Floru-Josephine þar um. Í þessu máli hefði undanþága án efa verið veitt á grundvelli dýravelferðar eins og undanþágan til að ljúka eftirlitsskýrslu sem var veitt 12 maí 2015.

Við Matvælastofnun starfar metnaðarfullt fólk með sérþekkingu á þörfum, velferð og heilbrigði dýra. Það er miður að þekking og mat þessara fagmanna hafi ekki fengið það vægi í starfi stofnunarinnar sem það ætti að fá.

Dýralæknafélag Íslands fagnar því að forstjóri Matvælastofnunar hafi nú lýst yfir ábyrgð í meðferð málsins og með því að nokkru rétt hlut þeirra starfsmanna sinna sem vildu höndla málið á annan hátt, með velferð dýranna og hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Meðferð þessa máls er engu að síður áfellisdómur yfir því skipulagi sem velferð og heilbrigði dýra er búið í stjórnkerfinu. Yfirdýralæknir á og þarf að vera æðsti yfirmaður velferðar og heilbrigðis dýra, málefna dýralækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna sem sinna dýrum. Tryggja þarf sjálfstæði yfirdýralæknis til ákvarðanatöku og að hann svari beint til ráðherra um þær ákvarðanir, og að hann geti þannig, þegar þörf krefur, fylgt eftir brýnum úrlausnarefnum er lúta að velferð dýra og hagsmunum neytenda.