Skip to main content

Yfirlýsing fagráðs um velferð dýra vegna máls Brúneggja

Fagráð um velferð dýra harmar að hraði og framvinda við meðferð mála Brúneggja hafi ekki ávallt miðast við að tryggja bestu velferð dýranna. Matvælastofnun var þó ljóst að alvarleg frávik voru í aðbúnaði og umhirðu fuglanna. Með tilliti til skipurits er yfirstjórn Matvælastofnunar ábyrg í þessu máli, bæði fyrir verkferlum og upplýsingaflæði til almennings. Sömuleiðis verður að benda á ábyrgð Bændasamtakanna og Búnaðarsambands í málinu, en athygli þeirra hafði ítrekað verið vakin á að búskaparhættir Brúneggja samrýmdust ekki kröfum reglugerðar nr. 504/1998 um vistvæna framleiðslu.

Mál Brúneggja leiðir í ljós hve ámælisverð sú ákvörðun Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis er að heimila áfram notkun merkis vistvænnar landbúnaðarframleiðslu og viðhalda þannig fölsku öryggi neytenda um vottaða dýravelferð þrátt fyrir að reglugerð nr. 504/1998 hafi verið felld úr gildi.

Fagráð um velferð dýra beinir því til þeirra aðila sem ábyrgð bera í málinu að gerðar verði nauðsynlegar úrbætur svo komið sé í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Mikilvægt er að marka þá stefnu að ekkert umburðarlyndi sé fyrir slæmri meðferð dýra.

Fagráðið telur að skoða verði skipulag og verkferla dýravelferðarmála og skerpa á lokafresti til að ljúka málum við alvarleg frávik. Öll málsmeðferð verður að hverfast um mat fagmanna á velferð dýranna.

Fagráðið álítur að yfirdýralæknir ætti einn að vera æðsti yfirmaður velferðar og heilbrigðis dýra og geta sem slíkur tekið sjálfstæðar ákvarðanir í dýravelferðarmálum.

Fagráð um velferð dýra lýsir sig tilbúið að styðja við endurskoðun verklags í dýravelferðarmálum, enda er það hlutverk fagráðsins sbr. 5.gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra, a. lið annarrar málsgreinar: ,,að vera Matvælastofnun til ráðuneytis um stefnumótun og einstök álitaefni er varða málefni á sviði velferðar dýra.”

Samþykkt samhljóða á fundi fagráðs, 8. desember 2016.