Lyfjastefna DÍ
STEFNA DÝRALÆKNAFÉLAGS ÍSLANDS UM NOTKUN OG ÁVÍSANIR LYFJA TIL BÚFJÁR
Markmið og tilgangur
1. Hindra að dýraafurðir séu mengaðar lyfjaleifum.
2. Hindra myndun ónæmis gegn sýklalyfjum og tryggja þannig möguleika á notkun þeirra í framtíðinni með því að draga úr notkun lyfja eins og kostur er.
3. Draga úr lyfjamengun náttúrunnar.
4. Bæta árangur lyfjameðhöndlunar.
Til að ná markmiðum þessum skal leggja höfuðáherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir í stað meðhöndlunar.
Mikilvægustu forsendur árangurs lyfjameðhöndlunar eru að einungis séu notuð örugg og virk lyf, að lyfin séu aðeins gefin þeim dýrum sem þau eru ætluð, að skammtar og tímalengd sé miðuð við viðkomandi dýr og sjúkdóm og að eigendum séu veittar allar nauðsynlegar upplýsingar.
Vísindaleg rök skulu ávallt liggja til grundvallar ákvörðun um notkun á sýklalyfjum.
Val á sýklalyfi skal vera markvisst. Nota skal þau lyf sem vitað er að virka best á viðkomandi sýkil. Penicillín er fyrsti valkostur við sýklalyfjagjöf.
Forðast skal notkun breiðvirkra lyfja og lyfja sem vitað er að valda frekar myndun ónæmis en önnur, þau skal eingöngu nota gegn sýklum sem ónæmir eru fyrir penicillíni.
Sýklastofnar sem ónæmir eru fyrir sýklalyfjum eru alvarlegt og óásættanlegt heilbrigðisvandamál, jafnt í dýrum sem mönnum. Á búum þar sem sýklalyfjaónæmi er viðvarandi skal gert átak til að losa hjörðina við hina ónæmu stofna.
Skilgreiningar
Lyf: Efni eða efnasamsetningar, lyf og sérlyf ætluð til lækningar, fróunar eða varnar gegn sjúkdómum eða sjúkdómseinkennum í mönnum eða dýrum. Enn fremur teljast hvers konar efni eða efnasamsetningar lyf, ef þau koma í eða á líkama manna eða dýra og eru notuð til að greina sjúkdóma, laga eða breyta líffærastarfsemi manna eða dýra eða færa hana í rétt horf.
Ávísun lyfja til búfjár: Munnleg, skrifleg eða rafræn pöntun lyfja frá lyfsölu með lyfseðli, ávísun, eða afhendingu frá eigin lyfsölu dýralæknis.
Notkun lyfja: Notkun lyfja við rannsókn eða meðhöndlun dýra.
Framhaldsmeðhöndlun: Framhald meðhöndlunar dýrs eftir skoðun og sjúkdómsgreiningu dýralæknis.
Eiginmeðhöndlun: Meðhöndlun hafin af dýraeiganda á einstöku dýri eða dýrahópi án undangenginnar sjúkdómsgreiningar dýralæknis.
Eftirmeðhöndlun: Meðhöndlun á grip sem áður hefur verið meðhöndlaður eða farið hefur fram sjúkdómsgreining á.
Lyfjaskráning: Skrá yfir ávísun, afhendingu og móttöku lyfja, ásamt upplýsingum um dýrið eða hjörðina sem lyfið er ætlað, sjúkdóm, magn og dagsetningu.
Lágmarkskröfur til dýralækna um meðferð og notkun lyfja
Dýralæknir ber undantekningarlaust ábyrgð á notkun lyfja sem hann notar í starfi sínu og afhendir öðrum til notkunar.
1. Notkun sýklalyfja skal byggja á undangenginni sjúkdómsgreiningu dýralæknis eftir skoðun á dýrinu.
2. Dýralækni er heimilt að fela dýraeiganda eftirmeðhöndlun, eftir sjúkdómsgreiningu.
Forsendur eftirmeðhöndlunar eru að fyrir liggi ítarlegar upplýsingar um sjúkdómssögu, einkenni, algengustu sýkla í hjörðinni, útbreiðslu ónæmis o.fl. t.d. eftir greiningu rannsóknarstofu á viðeigandi sýnum.
3. Einungis skal nota lyf með viðurkennd MRL- gildi til meðhöndlunar dýra ætluðum til manneldis.
4. Lyf skulu afhent dýraeiganda úr lyfsölu. Dýralæknir má afhenda sýklalyf til framhaldsmeðhöndlunar. Öll lyf skal merkja með notkunarleiðbeiningum, biðtíma afurðanýtingar, nafni dýralæknis og dagsetningu afhendingar lyfsins.
5. Á lyfseðil skal skrá dýrategund, einstaklingsnúmer dýrs, tilgang notkunar, leiðbeiningar um notkun, og biðtíma afurðanotkunar fyrir, egg, mjólk og kjöt, jafnvel þó hann sé enginn.
6. Við afhendingu lyfja til framhaldsmeðhöndlunar skal skrá biðtíma afurðanýtingar, jafnvel þó biðtíminn sé enginn. Skráningin skal gefa til kynna hvenær heimilt er að nýta mjólk, kjöt eða egg til manneldis. Við skráningu þessa skal nota eyðublað yfirdýralæknis þar að lútandi, eða sambærileg gögn.
7. Eiginmeðhöndlun án undangenginnar skoðunar, er einungis heimil ef fyrir liggur skriflegur, tímabundinn samningur milli dýralæknis búsins og dýraeiganda, sem tryggir að dýralæknirinn geti sinnt skyldum sínum um ábyrga notkun lyfja. Í samningi þessum skal að lágmarki kveðið á um samningsstíma, tíðni eftirlitsvitjana og að eftirfarandi upplýsingar séu skráðar á þar til gerð eyðublöð; dagsetning meðhöndlunar, merkingar dýra sem meðhöndluð eru, ástæða meðhöndlunar, magn og tegund lyfs sem notað er og biðtíma afurðanýtingar.
8. Dýralæknir búsins skal hafa eftirlit með notkun og skráningu lyfseðilsskyldra lyfja á búinu. Séu reglur um lyfjaskráningu og notkun brotnar, er dýraeiganda óheimilt að meðhöndla eigin dýr með þessum lyfjum.
9. Sérstök upplýsingaskylda hvílir á dýralækni gagnvart dýraeiganda um rétta notkun lyfjanna og smitgát, við framhaldsmeðhöndlun, eftirmeðhöndlun eða eiginmeðhöndlun með lyfseðilskyldum lyfjum.
10. Dýralækni ber að fylgjast með því að ávísuð og afhent lyf séu geymd í viðeigandi hirslum/skápum, einnig að lyfjaleifum og notuðum áhöldum til lyfjagjafa sé safnað saman og þeim eytt á tryggilegan hátt.
11. Meðhöndlun gegn sníkjudýrum skal framkvæmd af dýralækni eða dýraeiganda í samræmi við reglur um ávísun lyfja. Fylgjast ber með næmi gegn sníklalyfjum innan hjarða.
12. Meta skal þörf á ónæmisrannsókn við notkun sýklalyfja. Aukinni tíðni sjúkdómstilfella og aukinni notkun sýklalyfja í hjörð skal fylgja eftir með rannsóknum á sýklategund og næmi.
Lágmarkskröfur sem gera skal til búfjáreigenda í matvælaframleiðslu um meðferð lyfja og lyfjagjafir
1. Búfjáreigandi á ekki að hefja meðhöndlun án undangenginnar sjúkdómsgreiningar dýralæknis, þó er slík meðhöndlun heimil sbr. ákvæði um eiginmeðhöndlun.
2. Sláturdýr sem hafa verið meðhöndluð með lyfjum skulu vera einstaklingsmerkt.
3. Dýralyf skal geyma þar sem börn ná ekki til, aðskilin frá matvælum og sótthreinsiefnum.
4. Allar meðhöndlanir á dýrum skulu skráðar á sérstök eyðublöð.
Reykjavík 24. 11. 2001. Samþykkt á haustfundi D.Í.