Skip to main content

Saga Dýralæknafélags Íslands

 

Brynjólfur Sandholt tók saman 2001

Saga Dýralæknafélags Íslands og baráttan fyrir bættum kjörum dýralækna er svo samtvinnuð dýralæknalöggjöfinni og þróun dýralækninga að vart verður hjá því komist að fjalla um alla þessa þætti þegar ágrip að sögu félagsins er tekið saman.

Hér mun verða reynt að gera nokkur skil þeim þáttum sem hæst hafa borið í starfi félagsins og fleytt hefur félagsmönnum fram til þeirrar stöðu sem dýralæknar hafa í þjóðfélaginu í dag.

Stofnun félagsins

Óljóst er hver upprunalegi hvatinn var að stofnun Dýralæknafélags Íslands en ekki er fjarri lagi að álykta að koma tveggja nýútskrifaðra dýralækna til landsins um sumarið 1934 hafi átt þar drjúgan þátt.  Þar með fjölgaði dýralæknum á Íslandi um 50% eða í sex talsins. Öllum starfandi dýralæknum landsins var um haustið boðið til fundar í Reykjavík og eins og segir í fyrstu fundargerð félagsins var Dýralæknafélag Íslands þá stofnað.

 “Föstudaginn þ. 7. september 1934 komu dýralæknarnir  á Íslandi, en þeir voru sex talsins, saman til fundar á Hótel Borg í Reykjavík  til þess að halda með sér dýralæknafund. Segir svo í fundargerðinni að fyrsta mál sem liggi fyrir fundinum sé að stofna félagsskap með dýralæknum landsins.Var félagið síðan stofnað og nefnt Dýralæknafélag Íslands. Fyrsta stjórn félagsins var þannig skipuð: Sigurður E. Hlíðar, formaður, en meðstjórnendur þeir Hannes Jónsson og  Jón Pálsson.

Í fyrstu lögum félagsins segir að tilgangur félagsins sé:

 1. að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum íslenskra dýralækna.
 2. efla samhug og viðkynni stéttarinnar.
 3. mæta á opinberum vettvangi fyrir hönd íslenskra dýralækna.
 4. auka faglega þekkingu meðlima með fræðsluerindum, umræðum o. fl.

Meðlimir geta allir þeir orðið sem lokið hafa háskólaprófi í dýralækningum og starfa að dýralækningum á Íslandi.  Atkvæðisrétt á fundum hafa þó þeir einir sem hafa íslenskan ríkiborgararétt.”

Dýralæknum fjölgaði hægt á næstu áratugum

Dýralæknum fjölgaði hægt á næstu áratugum sem rekja má til þess að atvinnumöguleikar voru litlir og fagið höfðaði kannske ekki til þeirra sem hófu nám á háskólastigi á þeim tíma. Einnig setti síðari heimsstyrjöldin strik í reikninginn þar sem dýralæknanám var eingöngu mögulegt að stunda við erlenda háskóla og svo er reyndar enn.

Dýralæknum tók fyrst að fjölga á sjötta áratugnum og á 25 ára afmæli félagsins voru starfandi dýralæknar hér á landi 17 talsins þar af var ein kona sem þótti sérstakt á þeim tíma. Á næstu árum fjölgaði dýralæknum lítið bæði vegna aukins námskostnaðar af völdum sífelldra gengislækkana og atvinnutækifæri byggðust enn að miklu leyti á framboði á störfum í opinbera geiranum.

Ríkið var ekki ginnkeypt fyrir því að auka fjárveitingar til dýralækninga enn frekar en orðið var, sérstaklega þar sem nú hafði náðst jákvæður árangur í baráttunni við hina skæðu sauðfjársjúkdóma sem bárust til landsins á fjórða áratugnum. Það er ekki fyrr en upp úr 1970 sem dýralæknum tekur að fjölga að marki.

Fjöldi starfandi dýralæknar hér á landi hefur verið sem hér segir:

 • 1940    6
 • 1950    9
 • 1960    18
 • 1970    20
 • 1980    36
 • 1990    74
 • 2000    86
 • 2010   119 (51 karlar og 68 konur)

Árið 2010 voru 130 dýralæknar búsettir hér á landi.

Í dag (2010) eru 130 dýralæknar búsettir hér á landi. Af þeim eru 48 í störfum hjá ríki og sveitarfélögum (30 karlar, 18 konur),  57 eru sjálfstætt starfandi dýralæknar (13 karlar, 44 konur), 9 hjá einkafyrirtækjum (5 karlar, 4 konur). 5 við önnur störf (3 karlar, 2 konur) og 11 eru eftirlaunaþegar (11 karlar). Við störf erlendis eru 31 íslenskir dýralæknar.

Eftirtektarvert er að nú í dag eru 68 konur við dýralæknisstörf hér á landi eða um 57% af starfandi dýralæknum. Á síðustu 5 árum hafa 2 af hverjum 3 dýralæknum sem útskrifast verið konur og þetta hlutfall virðist fara vaxandi. Sambærilegrar þróunar gætir einnig víðast hvar erlendis.

Af þeim dýralæknum sem eru starfandi hafa 8 dýralæknar lokið doktorsprófi og 20 dýralæknar fengið viðurkenningu til að kalla sig sérfræðinga. Sérgreinarnar fjalla um smádýralækningar, hrossalækningar, nautgripa- og sauðfjársjúkdóma, alifugla-sjúkdóma, fisksjúkdóma, heilbrigðiseftirlit með afurðum sláturdýra og faraldsfræði dýrasjúkdóma. Af þessari upptalningu má sjá að íslenskir dýralæknar hafa verið framsæknir og fylgst vel með í sínu fagi á undanförnum árum enda hefur viðurkenning á dýralæknismenntun og  störfum dýralækna farið stöðugt vaxandi meðal þeirra sem þurfa á þjónustu dýralækna að halda.

Sjá nánar Ágrip af sögu dýralækna eftir Brynjólf Sandholt:
Ágrip af sögu Dýralækna

Fyrstu lögin um dýralækna

Fyrstu lögin um málefni dýralækna voru sett á Alþingi með lögum um dýralækna nr. 22 2. október 1891. Fram til þess tíma höfðu stjórnvöld fengið erlenda dýralækna til að starfa hér að vísindalegum rannsóknum eða skipuleggja aðgerðir til útrýmingar harðvítugum dýrasjúkdómnum sem höfðu borist til landsins og má þar nefna fjárkláðann.

Í lögunum frá 1891 segir að skipa skuli 2 dýralækna, annan í Suður- og Vesturamtinu og hinn í Norður- og Austuramtinu. Enginn dýralæknir hafði verið skipaður í landinu síðan Snorri Jónsson(1844-1879) var ráðinn dýralæknir 1870-1874 til aðstoðar í baráttunni við seinni fjárkláðann.  Stjórnvöld álitu að hans þyrfti ekki lengur við þegar nokkur árangur hafði náðst í að hemja fjárkláðann og sögðu honum upp störfum.

Rétt er að geta þess hér að fyrsti íslenski dýralæknirinn Teitur Finnbogason (1803-1883) lauk prófi frá Dýralæknaskólanum í Kaupmannahöfn 1833. Ekkert dýralæknisembætti var þá til hér á landi og var Teitur aldrei á föstum launum en honum voru öðru hvoru falin dýralæknisstörf í sambandi við seinni fjárkláðann.

Fyrra embættið (Suðuramtið) samkvæmt lögunum frá 1891 tókst ekki að skipa í fyrr en 1896 og hið síðara 1910. Síðan hefur landið ekki verið dýralæknislaust. Dýralæknisumdæmum fjölgaði í fjögur 1915 og 1933 var einu bætt við og öðru 1939.

Árið 1943 var samþykkt breyting á lögum um dýralækna sem fól í sér að héraðsdýralæknirinn í Reykjavík var skipaður af yfirdýralækni. Dýralæknafélagið hafði óskað þess að staða yfirdýralæknis yrði sérstakt starf en ekki að hann gengdi áfram héraðsdýralæknisstarfinu eins og sagði í lögunum. Sú breyting náði þó fram að ganga þegar nýr héraðsdýralæknir var skipaður í embætti Gullbringu- og Kjósarsýslu-umdæmi 1950.

Fyrst árið 1947 voru gerðar efnislegar breytingar á lögunum um dýralækna frá 1891 og skipulag dýralæknastarfseminnar í landinu fært í nútímalegra horf. Jafnframt var tveimur dýralæknisumdæmum bætt við auk þess að einn dýralæknir skyldi starfa sem sérfræðingur við Tilraunastöð háskólans í meinafræði að Keldum.

Upp úr 1960 þótti dýralæknum að á ný væri kominn tími til að endurskoða dýralæknalögin og létu þann vilja sinn í ljós við ráðamenn en við litlar undirtektir. Til þess að þoka málinu áfram kaus aðalfundur DÍ 1967 nefnd til að semja frumvarp að nýjum dýralæknalögum. Í nefndina voru kosnir Guðbrandur Hlíðar, formaður DÍ, Páll A. Pálsson, yfirdýralæknir og Brynjólfur Sandholt, héraðsdýralæknir.

Drög nefndarinnar að frumvarpi um ný lög um dýralækna ásamt ítarlegri greinargerð voru samþykkt á aðalfundi DÍ 1969 og send landbúnaðaráðherra með ósk um að hann legði frumvarpið fram á Alþingi til samþykktar. Jafnframt voru frumvarpsdrögin send Búnaðarþingi og skoraði það á ráðherra að leggja drögin fyrir Alþingi. Frumvarpið var samþykkt 1970 allmikið breytt og mörgum greinum þess breytt í heimildarákvæði.
Mikilvægar greinar úr frumvarpinu eru enn að skila sér rúmlega 30 árum eftir að það var lagt fram.

Af þeim nýmælum í tillögum DÍ sem náðu fram að ganga má nefna sérstaklega, 
a) að greiða skyldi staðaruppbót í umdæmum þar sem mjólkurkýr voru færri en 1600,
b) fyrir hver 10 ár sem héraðsdýralæknir hefur gegnt þjónustu á hann rétt á að hljóta 6 mánaða frí frá störfum á fullum launum til framhaldsnáms, og 
c) setja skyldi héraðsdýralæknum erindisbréf.

Heimildir í lögunum til að veita dýralækni lán þegar hann hæfi störf sem héraðsdýralæknir í fyrsta sinn og að sjá skyldi dýralæknisumdæmum fyrir sérstökum læknisáhöldum fengust aldrei nýttar. Í frumvarpinu var tillaga um að þegar héraðsdýralæknir færi í brýna vitjun umfram 50 km greiddi beiðandi vitjunar fyrir fyrstu 50 km en hið opinbera það sem umfram væri. Þetta var réttlætismál og var fyrst tekið upp í lög um dýralækna nr. 66/1998.

Á næstu áratugum fjölgar dýralæknisumdæmum og flest urðu þau 31 með lögunum frá 1981.

Breyting varð á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu fyrir dýr 1999. Var héraðsdýralæknaumdæmum fækkað í 13 sem fyrsti áfangi til að aðskilja opinbert eftirlit og praksis.

2009 var samþykkt síðan enn breyting á lögunum sem tóku gildi í nóvember 2011. Þar er héraðsdýralæknaumdæmum fækkað í 6.

Sjá nánar, Ágrip að sögu dýralækna hér fyrir ofan.