Skip to main content

Vísindasjóður DÍ

 

Sjóðurinn var stofnaður af Guðbrandi E. Hlíðar til minningar um foreldra sína þeirra Guðrúnu Louisu og Sigurðar E. Hlíðar fv. yfirdýralækni. Í skipulagsskrá fyrir sjóðinn, sem upphaflega var gefin út 22. júlí 1968 og endurskoðuð 24. apríl 1979, segir að sjóðurinn sé eign Dýralæknafélags Íslands. Stjórn sjóðsins skipa þrír dýralæknar, yfirdýralæknir, sem jafnframt er formaður sjóðstjórnar, einn dýralæknir kosinn af stjórn DÍ og annar kosinn af aðalfundi DÍ.
Styrk af úthlutunarfénu má veita íslenskum dýralæknum til framhaldsnáms, til vísindastarfa á dýralæknasviðinu eða sem verðlaun fyrir ritgerðir um skyld mál byggðar á sjálfstæðum rannsóknum. Sjóðstjórn er ennfremur heimilt að veita öðrum einstaklingum eða starfshópum viðurkenningu fyrir mikilvæg störf unnin á sviði dýralækninga.
Félagar DÍ hafa árlega lagt sjóðnum til ákveðið hlutfall af félagsgjöldum sínum.
Eign sjóðsins voru í lok ársins 2006 kr. 20.333.287.-

Skipulagsskrá fyrir Vísindasjóð DÍ

1.gr.
Sjóðurinn er stofnaður til minningar um Sigurð Einarsson Hlíðar, yfirdýralækni og konu hans Guðrúnu Louisu Hlíðar. Stofnfé er kr. 80.000.-

2.gr.
Sjóðurinn er eign Dýralæknafélags Íslands (D.Í.)

3.gr.
Sjóðsstjórn skipa eftirtaldir þrír dýralæknar:
1. Yfirdýralæknir, sem jafnframt er formaður sjóðsstjórnar.
2. Einn dýralæknir kosinn af stjórn D.Í.
3. Einn dýralæknir kosinn af aðalfundi D.Í.
Skulu þeir báðir kosnir til tveggja ára í senn.

4.gr.
Höfuðstól sjóðsins má aldrei skerða.
Hann skal ávaxta með því að kaupa fyrir hann bankavaxtabréf, bréf gefin út eða tryggð af ríkissjóði, eða á annan jafn öruggan hátt, að dómi sjóðsstjórnar.

5.gr.
Reikninga sjóðsins skal endurskoða með sama hætti og reikninga Dýralæknafélags Íslands.

6.gr.
Af vöxtum sjóðsins skal jafnan leggja þriðjung við höfuðstólinn, en tveimur þriðju má úthluta á hverju ári.
Verði minni upphæð úthlutað eitthvert ár, leggst afgangurinn af vöxtum við höfuðstól.
Þó skal sjóðsstjórn heimilt að úthluta vaxtaupphæð annað hvort ár og má þá greiða tvo þriðju hluta vaxta tveggja ára í einu. Frá því höfuðstóllinn nær kr. 250.000.- má veita árlega alla vexti hans.

7.gr.
Höfuðstóllinn skal, að öðru leyti, efla með frjálsum gjöfum eða áheitum.

8.gr.
Af úthlutunarfénu má veita íslenskum dýralæknum styrk til framhaldsnáms, til vísindastarfa á dýralæknasviðinu eða sem verðlaun fyrir ritgerðir um skyld mál, byggðar á sjálfstæðum rannsóknum.

9.gr.
Sjóðsstjórn er ennfremur heimilt, að veita öðrum einstaklingum, eða starfshópum, viðurkenningu fyrir mikilvæg störf unnin á sviði dýralækninga.´
Úthlutun úr sjóðnum skal fara fram 4. apríl ár hvert, í fyrsta skipti 1975 (á níræðisafmæli Sigurðar E. Hlíðar).

10.gr.
Leita skal staðfestingar forseta Íslands að skipulagsskrá þessari.
Nr. 206 / 24. apríl 1979

 

Verklagsreglur sjóðsstjórnar Vísindasjóðs DÍ

  1. Umsóknarfrestur í sjóðinn er 1. mars ár hvert. Umsókn skal send í netfangið (dyr@dyr.is) og skulu henni fylgja eftirtalin gögn:

a. Afrit af prófskírteini vegna námsgráðunnar sem styrkumsóknin á við eða

b. Staðfesting frá skóla um að nám hafi verið hafið, í tilfelli náms sem tekur 3 ár eða lengur, sjá lið 3.

Stjórn Vísindasjóðs getur óskað eftir frekari gögnum frá umsækjendum til þess að leggja mat á umsóknina.

  1. Umsóknir frá meðlimum Dýralæknafélags Íslands sem hafa verið í félaginu í a.m.k. 12 undangengna mánuði ganga fyrir öðrum umsóknum.
  2. Nám til PhD gráðu sem nemur 180 ECTS (evrópskar námseiningar) hlýtur hámarksúthlutun úr sjóðnum, en aðrar námsgráður samkvæmt fjölda ECTS fyrir að ljúka viðkomandi námsgráðu, en þó aldrei minna en 60 ECTS. Í tilfelli náms, sem tekur 3 ár eða meira, er hægt að sækja um styrk meðan á námsferlinum stendur, að því gefnu að staðfesting liggi fyrir frá skóla um að a.m.k. 60 ECTS hafi verið lokið. Styrkur eða verðlaun samkvæmt stofnskrá er metið skv. 5. tl. .
  3. Við ákvörðun um úthlutun hafa hæstu prófgráður hvers umsóknartímabils forgang, heildarúthlutun hvers árs miðast við ávöxtun sjóðsins undangengis árs.
  4. Sjóðstjórn ákveður árlega upphæð hámarksstyrks sem er þá 100% styrkur, 120 ECTS eru 75% styrkur og 60 ECTS eru 50% styrkur.
  5. Úthlutun fer fram 4. apríl ár hvert (á fæðingardegi Sigurðar E. Hlíðar)

 

Samþykkt af stjórn, 11. nóvember 2020