Skip to main content

Dýralæknafélag Íslands (DÍ) fordæmir þá ómannúðlegu meðferð á hrossum sem kemur fram í myndbandi Evrópskra dýravelferðarsamtaka um blóðmerar hér á landi. Harka og ónærgætni sem dýrunum er sýnd er aldrei hægt að réttlæta. Skarkali, ringulreið og sú umgjörð sem sjá má í myndbandinu er einungis til að auka á streitu og hræðslu  dýranna og alls ekki til þess fallið að auðvelda rekstur eða frekari meðferð.

Í ljósi umræðunnar og þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram á búgreinina, þá vill DÍ hvetja þá aðila sem tengjast blóðmerahaldi og um leið þá aðila sem taka ákvarðanir um umgjörð og starfsskilyrði greinarinnar að taka gagnrýna umræðu um meðal annars eftirfarandi þætti.

  • Umsvif og stærð búgreinarinnar.  Hefur umsvif búgreinarinnar aukist það mikið að ekki er hægt að tryggja ásættanlega umgjörð á búunum og þá um leið tryggja nægjanlegt eftirlit í greininni?
  • Eru gerðar nægjanlegar kröfur til eiganda um reynslu og þekkingu þeirra starfsmanna sem starfa á búunum þegar kemur að umgengni við dýr og velferð þeirra?
  • Er það eftirlit sem fer fram á búunum áhættumiðað?  Það er að ef hnökrar eru á framkvæmdinni að öflugra eftirlit verði haft með þeim búum.
  • Er þörf á að endurskoða þann ramma sem settur er um greinina enn betur, til dæmis hvað varðar fjölda dýra í hóp, fjölda dýra sem hver dýralæknir getur sinnt á hverju tímabili  og svo framvegis?

Mikilvægi þess að hafa góðan ramma og skýr starfsskilyrði ásamt öflugu eftirliti af hálfu hins opinbera er óumdeilt. Hins vegar skal aldrei horft fram hjá ábyrgð eiganda í slíkum málum. Ábyrgðin og sökin er fyrst og fremst hjá þeim sem eru umráðamenn og eigendur viðkomandi dýra.

Ábyrgð dýralækna sem vinna við blóðtöku úr hryssum er einnig skýr, þeim ber skylda til að hafa velferð dýranna í fyrirrúmi, leiðbeina eigendum eða stöðva blóðtökuna ef aðbúnaður og framkvæmd er ábótavant og gera  Matvælastofnun viðvart.  Dýralæknafélag Íslands beinir því til dýralækna að sýna ábyrgð í störfum sínum og grípa inn í aðstæður þegar þess gerist þörf.

Í siðareglum Dýrlæknafélags Íslands segir í 1. málsgrein: Dýralæknir skal hafa vakandi auga með því að farið sé vel með öll dýr, þau séu ekki hrekkt, meidd eða kröftum þeirra og þoli ofboðið. Hann skal beita sér fyrir því að í aðbúnaði húsdýra sé tekið tillit til þekkingar um náttúrulegt atferli dýranna er tryggi þeim góða vist. Dýralæknir skal gæta þess að ekki sé gengið svo nærri getu dýra að heilsa þeirra skerðist. Sjálfur skal dýralæknir vera til fyrirmyndar í umgengni við dýr.

Vitundarvakning og umræða um þá óásættanlegu meðferð á dýrum sem við sjáum í umræddu myndskeiði er nauðsynleg.

Fyrir hönd stjórnar,

Bára Eyfjörð Heimisdóttir formaður Dýralæknafélags Íslands.