Fréttatilkynning:
Sumarfundur og aðalfundur Dýralæknafélagsins var haldinn að Laugarbakka 24.-25. ágúst 2019.
Á fundinum var rætt um starfsumhverfi dýralækna, þar á meðal erfið starfsskilyrði þeirra sem tryggja þjónustu við dýraeigendur á dreifbýlli svæðum og þeirra sem standa bakvaktir samkvæmt úreltum samningum við ríkið.
Fundarmenn voru sammála um að það þyrfti að hugsa núverandi kerfi alveg upp á nýtt og endurskoða algjöran aðskilnað opinbers eftirlits og þjónustu sem var komið á þegar gamla héraðsdýralæknakerfið var lagt niður. Samningar um þjónustu við dýraeigendur á dreifbýlli svæðum falla úr gildi 1. nóvember nk. og verða þá níu dreifbýl svæði án þjónustu dýralæknis. Til þess að dýralæknar fáist til starfa á þessum svæðum verður að breyta starfsskilyrðum þannig að hægt verði að taka frí, sækja endurmenntun, fara í fæðingarorlof og/eða veikindaorlof. Benda má á að þekking og reynsla margra þeirra dýralækna sem veitt hafa dýralæknaþjónustu samkvæmt samningunum er vannýtt auðlind og mætti njóta þeirra krafta við mörg önnur verkefni en þau hafa á hendi í dag. Bent er á að samningar þessir snúast um þjónustu við neytendur, og nauðsynlegt er að fleiri aðilar komi að því að tryggja gott kerfi um dýraheilbrigði og dýravelferð á landinu öllu.
Dýralæknafélagið á fulltrúa í starfshóp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingar á kerfinu sem á að tryggja dýravelferð og viðbrögð við dýrasjúkdómum alls staðar á landinu og allan sólarhringinn. Hópurinn á að skila tillögum að breyttu kerfi í október, en þá verður umsóknarfrestur um samninga um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum runninn út. Það er því of naumur tími til stefnu til þess að hægt verði að gera raunverulegar breytingar áður en skrifað er undir nýja þjónustusamninga.
Fundurinn taldi að ekki ætti að skrifa undir samning til fimm ára á meðan núverandi kerfi er við lýði og voru dýralæknar hvattir til þess að sækja ekki um þessa samninga fyrr en viðunandi breytingar nást fram. Dýralæknafélagið mælist til þess við Matvælastofnun að gerðir verði samningar til styttri tíma, sem verði svo leystir af hólmi af nýjum samningi þegar ásættanlegar breytingar hafa verið gerðar.
Á fundinum var samþykkt eftirfarandi ályktun:
Aðalfundur Dýralæknafélags Íslands haldinn að Laugarbakka 25. ágúst 2019 mælist til þess við Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að gengið verði til viðræðna við Neytendasamtökin, Bændasamtökin, Landssamband hestamannafélaga, gæludýraeigendur og aðra hagsmunaaðila um leiðir og aðgerðir til að tryggja sólarhringsþjónustu dýralækna um land allt. Í þessu sambandi er minnt á mikilvægi dýravelferðar, matvælaöryggis og sameiginlegrar heilsu manna og dýra.