Skip to main content
Category

Fréttir og viðburðir

Yfirlýsing Dýralæknafélags Íslands um illa meðferð á hryssum við blóðtöku

By Fréttir og viðburðir

Dýralæknafélag Íslands (DÍ) fordæmir þá ómannúðlegu meðferð á hrossum sem kemur fram í myndbandi Evrópskra dýravelferðarsamtaka um blóðmerar hér á landi. Harka og ónærgætni sem dýrunum er sýnd er aldrei hægt að réttlæta. Skarkali, ringulreið og sú umgjörð sem sjá má í myndbandinu er einungis til að auka á streitu og hræðslu  dýranna og alls ekki til þess fallið að auðvelda rekstur eða frekari meðferð.

Í ljósi umræðunnar og þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram á búgreinina, þá vill DÍ hvetja þá aðila sem tengjast blóðmerahaldi og um leið þá aðila sem taka ákvarðanir um umgjörð og starfsskilyrði greinarinnar að taka gagnrýna umræðu um meðal annars eftirfarandi þætti.

  • Umsvif og stærð búgreinarinnar.  Hefur umsvif búgreinarinnar aukist það mikið að ekki er hægt að tryggja ásættanlega umgjörð á búunum og þá um leið tryggja nægjanlegt eftirlit í greininni?
  • Eru gerðar nægjanlegar kröfur til eiganda um reynslu og þekkingu þeirra starfsmanna sem starfa á búunum þegar kemur að umgengni við dýr og velferð þeirra?
  • Er það eftirlit sem fer fram á búunum áhættumiðað?  Það er að ef hnökrar eru á framkvæmdinni að öflugra eftirlit verði haft með þeim búum.
  • Er þörf á að endurskoða þann ramma sem settur er um greinina enn betur, til dæmis hvað varðar fjölda dýra í hóp, fjölda dýra sem hver dýralæknir getur sinnt á hverju tímabili  og svo framvegis?

Mikilvægi þess að hafa góðan ramma og skýr starfsskilyrði ásamt öflugu eftirliti af hálfu hins opinbera er óumdeilt. Hins vegar skal aldrei horft fram hjá ábyrgð eiganda í slíkum málum. Ábyrgðin og sökin er fyrst og fremst hjá þeim sem eru umráðamenn og eigendur viðkomandi dýra.

Ábyrgð dýralækna sem vinna við blóðtöku úr hryssum er einnig skýr, þeim ber skylda til að hafa velferð dýranna í fyrirrúmi, leiðbeina eigendum eða stöðva blóðtökuna ef aðbúnaður og framkvæmd er ábótavant og gera  Matvælastofnun viðvart.  Dýralæknafélag Íslands beinir því til dýralækna að sýna ábyrgð í störfum sínum og grípa inn í aðstæður þegar þess gerist þörf.

Í siðareglum Dýrlæknafélags Íslands segir í 1. málsgrein: Dýralæknir skal hafa vakandi auga með því að farið sé vel með öll dýr, þau séu ekki hrekkt, meidd eða kröftum þeirra og þoli ofboðið. Hann skal beita sér fyrir því að í aðbúnaði húsdýra sé tekið tillit til þekkingar um náttúrulegt atferli dýranna er tryggi þeim góða vist. Dýralæknir skal gæta þess að ekki sé gengið svo nærri getu dýra að heilsa þeirra skerðist. Sjálfur skal dýralæknir vera til fyrirmyndar í umgengni við dýr.

Vitundarvakning og umræða um þá óásættanlegu meðferð á dýrum sem við sjáum í umræddu myndskeiði er nauðsynleg.

Fyrir hönd stjórnar,

Bára Eyfjörð Heimisdóttir formaður Dýralæknafélags Íslands.

Ályktun DÍ vegna umræðu um flatnefja gæludýr

By Fréttir og viðburðir

Dýralæknafélag Íslands (DÍ) fagnar þeirri umræðu sem hefur verið í samfélaginu síðustu misseri um velferð og heilbrigði flatnefja gæludýra.

Umræðan er nauðsynleg til að ræktendur, dýraeigendur og dýralæknar geti í sameiningu tekist á við það stóra verkefni að bæta heilbrigði og líðan þessara dýra. Vinsældir þessara tegunda (e. Brachycephalic) hafa farið mjög vaxandi hérlendis, þar má til dæmis nefna enskan- og franskan bulldog og pug. Geðslag þessara dýra er í flestum tilfellum afar gott, en oft virðist skorta á fræðslu til eiganda um þá fjölmörgu heilsukvilla sem fylgir þeim ýktu útlitseinkennum sem hafa verið ræktuð fram á kostnað heilbrigðis. Umræðan er löngu tímabær hérlendis, en hjá evrópskum dýralæknum hefur lengi staðið yfir herferð til að beina athyglinni að þessu mikilvæga velferðarmáli. Líkamsbygging og útlit dýranna getur leitt til fjölmargra heilsutengdra vandamála sem skerðir mjög lífsgæði, þar má meðal annars nefna öndunarörðugleika, tann- og augnvandamál,  hryggskekkju sem getur leitt til lömunar og/eða verkja,  síendurtekinna húðsýkinga í húðfellingum auk þess sem þessi dýr eiga oft erfitt með að parast eðlilega og tíkur eiga erfitt með got.

Mikilvægt er að íslenskir ræktendur séu gagnrýnir á þessi alvarlegu heilsuvandamál og miði ræktunarstarf sitt að því að bæta heilsu dýranna með sinni ræktun.

Ályktun DÍ um bann við lausagöngu katta á Akureyri

By Fréttir og viðburðir

Dýralæknafélag Íslands (DÍ) harmar að bæjarstjórn Akureyrar hafi samþykkt bann við lausagöngu katta í bænum frá 1. janúar 2025.

DÍ þykir sérstakt að það skuli gengið svona hart til verks, í stað þess að framfylgja samþykktum Akureyrarbæjar sem eru í gildi. Líftími katta er að meðaltali 14-18 ár, því eru sólarlagsákvæði um að bannið skuli taka gildi eftir einungis rúm 3 ár allt of stutt. Afar erfitt er að loka kött inni, sem er nú þegar vanur að fara sinna ferða.

Þetta mun setja marga kattaeigendur í erfiða stöðu, þar sem valið mun  jafnvel standa á milli þess að láta aflífa gæludýrið sitt eða koma því á nýtt heimili utan bæjarins.  Kostir þess að umgangast gæludýr eru vel þekktir og gæludýr geta aukið lífsgæði bæði hjá börnum og fullorðnum í formi andlegs- og líkamlegs ávinnings.

Kettinum er eðlislægt að kanna umhverfi sitt og að leyfa þeim að ganga frjálsum veitir þeim andlega örvun og minnkar streitu hjá þeim.  Utandyra geta þeir iðkað sína náttúrlega hegðun eins og að klóra og merkja. Útiumhverfið er flókin blanda af mismunandi lykt, hljóðum, áferð o.fl. sem er sí breytilegt og fullnægir þeirra eðlislæga atferli.  Þó sumir kettir, sem þekkja ekki annað, sætti sig við að vera innikettir eru fleiri sem höndla það ekki og getur innilokun leitt til streitu og hegðunarvandamála vegna vanlíðunar t.d. merkinga eða árásargirni.

Varðandi áhrif lausagöngu heimiliskatta á fuglalíf, eru engar skýrar vísindalegar sannanir fyrir því að lausagöngubann katta hafi jákvæð áhrif á fuglastofna. Dýralæknafélag Íslands telur það mun raunhæfari lausn að taka á vandanum á annan hátt en með því að banna lausagöngu.  Til dæmis má  nefna átak í fækkun villikatta, aukna fræðslu til eigenda um leiðir til að draga úr veiðigetu (t.d bjöllur, kragar) og útgöngubann að næturlagi (17-09) á varptíma fugla. Með þessu er hægt að draga úr tjóni á lífríki án þess að hafa áhrif á velferð katta.

Það er því mat Dýrlæknafélags Íslands að með banninu er vegið að eðlislægu atferli kattarins og velferð hans.

Bára Eyfjörð Heimisdóttir, formaður Dýralæknafélags Íslands.

 

Andleg vanlíðan og streita algeng meðal dýralækna

By Fréttir og viðburðir

Andleg vanlíðan og streita er algeng meðal dýralækna hér á landi skv. nýrri könnun sem Dýralæknafélag Íslands gerði meðal félagsmanna sinna. Stóraukið gæludýrahald á landsvísu, óvægin umræða á samfélagsmiðlum, óraunhæfar kröfur viðskiptavina, einmanaleiki, samúðarþreyta og mannekla eru meðal helstu orsakavalda. Könnunin var gerð í samstarfi við fyrirtækið Outcome dagana 7.– 14. júni og var svarhlutfall 60%.

Álag hefur aukist til muna

Helmingur svarenda í könnuninni töldu álag í starfi vera við þolmörk (810) og minnihluti taldi álagið lítið eða í meðallagi (29%). Álag í starfi virðist hafa aukist síðustu misseri en 68% sögðu álagið hafa aukist, þar af 59% mikið eða mjög mikið. Einn af hverjum fimm (21%) sögðust hafa skipt um starf vegna álags á lífsleiðinni. Allnokkrir hættu störfum alfarið.

Helstu ástæður aukins álags eru sagðar vera aukin gæludýraeign landsmanna og auknar og óraunhæfar væntingar og kröfur viðskiptavina. Framfarir í faginu hafa jafnframt aukið þjónustuframboð dýralækna til muna og krafan um aukna tæknivæðingu og endurmenntun verður sífellt háværari. Nokkur mannekla virðist vera í faginu og þá sérstaklega á landsbyggðinni en hafa ber hér í huga að nýlega var umdæmum héraðsdýralækna Matvælastofnunar fækkað úr fimm í fjögur. Valdar sögur félagsmanna af álagi í starfi má sjá í boxi á næstu síðu.

Heilsufar dýralækna: Er sama uppi á teningnum á Íslandi?

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna hefur rannsakað starfsumhverfi og heilsutengda þætti meðal dýralækna um árabil. Benda niðurstöðurnar til þess að bandarískir dýralæknar séu mun líklegri til að upplifa andlegan heilsubrest en aðrar stéttir. Einn af hverjum sex sögðust hafa íhugað sjálfsvíg einhvern tímann um ævina. Niðurstöður breskra og norskra kannana benda til hins sama en samkvæmt breskri rannsókn eru dýralæknar þrisvar til fjórum sinnum líklegri til að falla fyrir eigin hendi en meðalmanneskjan og norskir dýralæknar um tvöfalt líklegri.[1] Ekki liggur fyrir hvort staðan á Íslandi sé jafn slæm og í öðrum löndum en í könnun Dýralæknafélagsins sögðust 75% svarenda finna fyrir streitueinkennum vegna mikils álags í starfi, þar af 45% bæði fyrir líkamlegum og andlegum einkennum. Helstu ástæður eru sagðar vera álag, einmanaleiki starfsins, skortur á stuðningsneti og tengslum við samstarfsfélaga, samúðarþreyta og, síðast en ekki síst, óvægin og ósanngjörn umræða á samfélagsmiðlum um dýralækna. Eftirlitsdýralæknar hafa þá orðið fyrir því að vegið sé að sálrænu og líkamlegu öryggi þeirra í eftirlitsferðum í sveitum landsins þegar kannað er hvort settum lögum og reglum, t.d. um dýravelferð og aðra þætti, sé framfylgt.

Mikilvægt er að gerðar séu frekari rannsóknir á heilsu og starfsumhverfi dýralækna á Íslandi og mörkuð sé stefna um leiðina fram á við og aukinn stuðning við stéttina.

Sögur dýralækna á Íslandi

„Aðalástæða aukins álags er líklega aukin gæludýraeign, meiri kröfur til þjónustu. Svo er verið að taka ákvarðanir um líf og dauða dýra sem eru orðin að fjölskyldumeðlimum“

„Dýralæknar í dreifðari byggðum hafa gert þjónustusamning um verktakagreiðslur við MAST en eru að öðru leyti án réttinda, ef þeir veikjast eða þurfa að láta tímabundið af störfum. Stærri vaktsvæði er ómögulegt að manna einn. Álagið er gríðarlegt, þeir dýralæknar sem sinna öllum bakvöktum á sínu svæði vinna yfir 6.000 klst á ári á bakvöktum. Sumir þurfa að keyra 180 km hvora leið yfir fjallvegi í allavega veðrum og ófærð  til að geta sinnt vitjunum á svæðinu“

„Margir eftirlitsþolar komast upp með óvinsamlega framkomu, jafnvel sýna ofbeldi“

„Eru mikið einir á vakt án félagslegs stuðnings vinnufélaga…það stendur enginn undir kröfum um 24/7 vaktir til lengdar án mikils stuðnings frá fjölskyldu og kollegum“

„Samfélagsmiðlar spila stórt hlutverk – óvægin umræða á netinu t.d. frá gæludýraeigendum

 

[1]      cdc.gov/mmwr/preview/mmwrhtml/mm6405a6.htm, https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/20591857 og https://www.nrk.no/osloogviken/veterinaerer-ligger-hoyest-pa-selvmordsstatistikken-_-na-skal-det-forskes-pa-hvorfor-1.15277696

Ályktanir á aðalfundi DÍ 13. mars 2021

By Fréttir og viðburðir

Á aðalfundi Dýralæknafélags Íslands sem haldinn var 13. mars 2021 voru samþykktar eftirfarandi ályktanir:

Aðalfundur Dýralæknafélags Íslands 13. mars 2021 leggur eindregið til við landbúnaðarráðherra að hætt verði við núverandi áform um að leyfa sölu á heimaslátruðu kjöti með takmarkaðri aðkomu dýralækna, þar sem það er talin ógnun við matvælaöryggi og dýravelferð.

 

Aðalfundur Dýralæknafélags Íslands haldinn 13.mars 2021 telur mikilvægt að ekki verði frekari tafir á því að setja reglugerð þar sem skilgreint verði hvar sé  talið nauðsynlegt að dýralæknar búi yfir kunnáttu í íslensku sbr. breytingar sem Alþingi gerði árið 2018  á ákvæðum í 5. mgr. 6. gr.  laga nr.66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.

 

Aðalfundur DÍ 13. mars 2021

By Fréttir og viðburðir

DÍ boðar til aðalfundar laugardaginn 13. mars 2021 kl 10:00-14:00 á Teams (fundarboð verður sent út til félagsmanna í tölvupósti). Þó fundurinn verði fyrst og fremst fjarfundur verður einnig möguleiki að sitja fundinn í húsnæði Distica, Hörgatúni 2, Garðabæ. Húsið opnar klukkan 9:30.

Áður en hefðbundin aðalfundarstörf fara fram, mun VÁ teymi Matvæla­stofnunar kynna viðbragðsáætlun vegna alvarlegra dýrasjúkdóma. Áætlunin hefur verið í endurskoðun og verður vonandi bráðlega gefin út í gæðahandbók.

Félagar eru hvattir til að bjóða fram krafta sína til trúnaðarstarfa á vegum félagsins.

10:00 – Viðbragðsáætlun Matvælastofnunar kynnt á vegum VÁ teymis Mast

11:15 – Aðalfundur – hefðbundin aðalfundarstörf:

  1. Skýrsla stjórnar
  2. Reikningar lagðir fram:
  3. Dýralæknafélagsins
  4. Rannsóknarsjóðs DÍ
  5. Vísindasjóðs DÍ
  6. Félagsgjöld ákveðin (skv. 6. gr.)
  7. Upphæð þóknunar til formanns, gjaldkera, ritara og varamanns fyrir næsta starfsár ákveðin
  8. Tillögur að lagabreytingum

Engar tillögur hafa borist

  1. Skýrslur nefnda
  2. Kosningar:
  3. Stjórn félagsins

Kosið í þrjú embætti til tveggja ára: formaður (Bára Eyfjörð Heimisdóttir býður sig fram), ritari (Elísabet Hrönn Fjóludóttir býður sig fram) og varamaður (Gísli Sverrir Halldórsson býður sig fram)

  1. Skoðunarmenn reikninga (innri og ytri skoðunarmaður)
  2. Þrír fulltrúar í uppstillingarnefnd (skv. 8. gr.)
  3. Stjórnarmaður í Vísindasjóð DÍ

Guðbjörg Þorvarðardóttir býður sig fram í stað Þorsteins Ólafssonar

  1. Tveir fulltrúar í siðanefnd ásamt varamönnum
  2. Fimm manna samninganefnd vegna samninga við ríki, sveitarfélög og Samtök atvinnulífsins
  3. Þriggja manna ritstjórn vegna heimasíðu DÍ
  4. Þriggja manna undirbúningsnefnd Dýralæknaþings
  5. Fulltrúar í ráð og aðrar nefndir sem félagið á aðild að.
  6. Önnur mál er fram koma og varða félagið.

 

Hlökkum til að sjá og skjá sem flest

Stjórnin

 

Dýralæknaþing í Breiðdalsvík 11.-13. september

By Fréttir og viðburðir

Skráning er hafin á Dýralæknaþingið sem fram fer í Breiðdalsvík dagana 11.-13. september 2020. Meðfylgjandi eru drög að dagskrá. 

Upplýsingar um verð og skráningu, sjá hér fyrir neðan.

Drög að dagskrá:

Föstudagur

18:00 – 19:00 Stutt síðdegisganga um Breiðdalsvík undir leiðsögn Hákonar

19:15 Kvöldverður og Pubquiz/Kahoot

Laugardagur

(Morgunverður, innifalinn hjá þeim sem eru í gistingu aðfaranótt laugardags. Tjaldbúar geta keypt morgunverð á hótelinu).

9:30 Skráning, kaffi

09:50 – 10:50 Kynning: viðbragðsteymi MAST

11:00 – 11.30 Erindi

11:30 – 12:00 Erindi

12:00-13:00 Hádegisverður

13:00 – 15:00 Kersti Seksel dýralæknir og atferlisfræðingur frá Ástralíu

16:00-18:15 Skoðunarferð um nágrennið. Boðið er upp á skoðunarferð undir leiðsögn heimamanna og fordrykk fyrir kvöldverðinn.

19:00 Hátíðarkvöldverður – glaumur og gleði. DÍ greiðir fyrir félagsmenn.

Sunnudagur

(Morgunverður, innifalinn hjá þeim sem eru í gistingu aðfaranótt laugardags. Tjaldbúar geta keypt morgunverð á hótelinu).

09:00 – 11:00 Aðalfundur DÍ

Aðalfundurinn verður auglýstur nánar síðar en stjórn DÍ hvetur félagsmenn til að bjóða sig fram til trúnaðarstarfa. Kallað hefur verið eftir framboðum í stjórn félagsins þar á meðal til formanns en núverandi formaður gefur ekki kost á sér aftur.

SKRÁNING OG VERÐ:  Skráningargjald er kr. 4.000.-

Herbergi hver nótt á Hótel Bláfelli, Breiðdalsvík https://breiddalsvik.is/hotel-blafell/

  • Tveggja manna herbergi 16.850.-kr m/morgunverð
  • Eins manns herbergi 15.850.-kr m/morgunverð
  • Hátíðar kvöldverður laugardag 7.900.-kr pr.mann (þriggja rétta: forréttur, lamb í aðalrétt, og kaka í eftirrétt) (möguleiki á vegan). DÍ greiðir fyrir félagsmenn.

Þátttakendur skrái sig með því að senda tölvupóst á dyr@dyr.is

Heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu

By Fréttir og viðburðir

Þann 1. janúar 2020 var Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir, sæmd heiðursorðu hinnar íslensku fálkaorðu. Fékk hún riddarakross fyrir framlag til velferðar dýra og störf á vettvangi dýralækninga og sjúkdómavarna. Dýralæknafélag Íslands óskar Sigurborgu innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Fréttatilkynning

By Fréttir og viðburðir

Fréttatilkynning:

Sumarfundur og aðalfundur Dýralæknafélagsins var haldinn að Laugarbakka 24.-25. ágúst 2019.

Á fundinum var rætt um starfsumhverfi dýralækna, þar á meðal erfið starfsskilyrði þeirra sem tryggja þjónustu við dýraeigendur á dreifbýlli svæðum og þeirra sem standa bakvaktir samkvæmt úreltum samningum við ríkið.

Fundarmenn voru sammála um að það þyrfti að hugsa núverandi kerfi alveg upp á nýtt og endurskoða algjöran aðskilnað opinbers eftirlits og þjónustu sem var komið á þegar gamla héraðsdýralæknakerfið var lagt niður. Samningar um þjónustu við dýraeigendur á dreifbýlli svæðum falla úr gildi 1. nóvember nk. og verða þá níu dreifbýl svæði án þjónustu dýralæknis. Til þess að dýralæknar fáist til starfa á þessum svæðum verður að breyta starfsskilyrðum þannig að hægt verði að taka frí, sækja endurmenntun, fara í fæðingarorlof og/eða veikindaorlof. Benda má á að þekking og reynsla margra þeirra dýralækna sem veitt hafa dýralæknaþjónustu samkvæmt samningunum er vannýtt auðlind og mætti njóta þeirra krafta við mörg önnur verkefni en þau hafa á hendi í dag. Bent er á að samningar þessir snúast um þjónustu við neytendur, og nauðsynlegt er að fleiri aðilar komi að því að tryggja gott kerfi um dýraheilbrigði og dýravelferð á landinu öllu.

Dýralæknafélagið á fulltrúa í starfshóp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingar á kerfinu sem á að tryggja dýravelferð og viðbrögð við dýrasjúkdómum alls staðar á landinu og allan sólarhringinn. Hópurinn á að skila tillögum að breyttu kerfi í október, en þá verður umsóknarfrestur um samninga um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum runninn út. Það er því of naumur tími til stefnu til þess að hægt verði að gera raunverulegar breytingar áður en skrifað er undir nýja þjónustusamninga.

Fundurinn  taldi að ekki ætti að skrifa undir samning til fimm ára á meðan núverandi kerfi er við lýði og voru dýralæknar hvattir til þess að sækja ekki um þessa samninga fyrr en viðunandi breytingar nást fram. Dýralæknafélagið mælist til þess við Matvælastofnun að gerðir verði samningar til styttri tíma, sem verði svo leystir af hólmi af nýjum samningi þegar ásættanlegar breytingar hafa verið gerðar.

Á fundinum var samþykkt eftirfarandi ályktun:

Aðalfundur Dýralæknafélags Íslands haldinn að Laugarbakka 25. ágúst 2019 mælist til þess við Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að gengið verði til viðræðna við Neytendasamtökin, Bændasamtökin, Landssamband hestamannafélaga, gæludýraeigendur og aðra hagsmunaaðila um leiðir og aðgerðir til að tryggja sólarhringsþjónustu dýralækna um land allt. Í þessu sambandi er minnt á mikilvægi dýravelferðar, matvælaöryggis og sameiginlegrar heilsu manna og dýra.

Ályktun aðalfundar Dýralæknafélags Íslands 2019

By Fréttir og viðburðir

Aðalfundur Dýralæknafélags Íslands haldinn að Laugarbakka 25. ágúst 2019 mælist til þess við Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að gengið verði til viðræðna við Neytendasamtökin, Bændasamtökin, Landssamband hestamannafélaga, gæludýraeigendur og aðra hagsmunaaðila um leiðir og aðgerðir til að tryggja sólarhringsþjónustu dýralækna um land allt. Í þessu sambandi er minnt á mikilvægi dýravelferðar, matvælaöryggis og sameiginlegrar heilsu manna og dýra.