Skip to main content

Dýralæknafélag Íslands (DÍ) fagnar þeirri umræðu sem hefur verið í samfélaginu síðustu misseri um velferð og heilbrigði flatnefja gæludýra.

Umræðan er nauðsynleg til að ræktendur, dýraeigendur og dýralæknar geti í sameiningu tekist á við það stóra verkefni að bæta heilbrigði og líðan þessara dýra. Vinsældir þessara tegunda (e. Brachycephalic) hafa farið mjög vaxandi hérlendis, þar má til dæmis nefna enskan- og franskan bulldog og pug. Geðslag þessara dýra er í flestum tilfellum afar gott, en oft virðist skorta á fræðslu til eiganda um þá fjölmörgu heilsukvilla sem fylgir þeim ýktu útlitseinkennum sem hafa verið ræktuð fram á kostnað heilbrigðis. Umræðan er löngu tímabær hérlendis, en hjá evrópskum dýralæknum hefur lengi staðið yfir herferð til að beina athyglinni að þessu mikilvæga velferðarmáli. Líkamsbygging og útlit dýranna getur leitt til fjölmargra heilsutengdra vandamála sem skerðir mjög lífsgæði, þar má meðal annars nefna öndunarörðugleika, tann- og augnvandamál,  hryggskekkju sem getur leitt til lömunar og/eða verkja,  síendurtekinna húðsýkinga í húðfellingum auk þess sem þessi dýr eiga oft erfitt með að parast eðlilega og tíkur eiga erfitt með got.

Mikilvægt er að íslenskir ræktendur séu gagnrýnir á þessi alvarlegu heilsuvandamál og miði ræktunarstarf sitt að því að bæta heilsu dýranna með sinni ræktun.